„Endurskoðun á starfseminni hér enn í gangi og við erum í virku samtali við okkar hagsmunaaðila. Við höfum ekki enn náð samkomulagi við Landsvirkjun um raforkusamning sem gerir álverið í Straumsvík samkeppnishæft og fjárhagslega sjálfbært til framtíðar,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi ISAL (álverið í Straumsvík).
Nú í morgun var greint frá því að Rio Tinto hygðist loka álverum sínum í Nýja-Sjálandi á næsta ári. Er það talið til marks um bága stöðu álvera víða um heim. Vegur hátt raforkuverð og slæmar skammtímahorfur á álmarkaði þar þyngst. Að sögn Bjarna er álverð nú nær sögulegu lágmarki.
„Álver um allan heim eru undir mjög mikilli pressu á meðan álverð er svona lágt. Áður en Covid-19 skall á var álverð þegar nálægt sögulegu lágmarki, m.a. vegna offramboðs á áli frá Kína. Covid-19 hefur haft mikil áhrif á eftirspurn og gert stöðuna enn verri,“ segir Bjarni og bætir við að allt hafi verið reynt til að tryggja áframhaldandi starfsemi í Nýja-Sjálandi.
„Í Nýja Sjálandi lagði Rio Tinto og aðrir hagsmunaaðilar þar mikið á sig til að ná samkomulagi um raforkuverð sem gerði starfsemina þar samkeppnishæfa. Það tókst ekki og er þetta niðurstaðan.“