Tískuverslanafyrirtækið Lindex mun opna nýja 300 fermetra verslun á Egilsstöðum í haust. Í tilkynningu segir að verslunin verði við hlið Bónuss í Miðvangi, aðalverslunarkjarna miðbæjar Egilsstaða. Boðið verður upp á allar þrjár meginvörulínur Lindex, ásamt því sem nýjasta tækni verður í boði, eins og 70 tommu snertiskjáir við mátunarklefa. „Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á Lindex sem hefur hvatt okkur áfram í að finna stað fyrir verslun okkar hér. Við teljum því einstakt að koma og festa rætur hér á Austurlandi með verslun sem Austlendingar geta kallað sína eigin. Við erum því full tilhlökkunar að koma austur og fagna opnuninni,“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi, í fréttatilkynningunni.
Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður-Evrópu með um 500 verslanir í 18 löndum. Boðið er upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt, snyrtivörur og fylgihluti sem og fatnað á börn og unglinga.