Einbeita sér að viðræðum við lífeyrissjóðina

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Arnþór

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að betur hafi gengið í rekstri Icelandair en hann átti von á. Sjóðsstaðan sé sterkari en gert var ráð fyrir, en ljóst er að svona geti þetta ekki haldið áfram lengi. Í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri kemur fram að félagið hafi tapað 12,3 milljörðum síðustu þrjá mánuði.

Fyrirhugað er hlutafjárútboð í ágúst, þar sem heimild er fyrir hendi til þess að safna allt að 30 milljörðum í nýju hlutafé. Áður þarf að klára viðræður við lánadrottna og leigusala um að breyta niðurgreiðsluáætlun skulda vegna breyttrar stöðu félagsins. Í vikunni er miðað við að viðræður klárist annars vegar við Boeing og hins vegar við umrædda lánadrottna.

Vilja fá bætt tjón og hætta við að kaupa vélar

Bogi segir að viðræðurnar við Boeing snúi fyrst og fremst að tveimur þáttum. „Það er annars vegar að ræða um frekari bætur vegna þess tjóns sem við höfum orðið fyrir og hins vegar hugsanlega breyta þessum pöntunum sem við erum með fyrir tíu vélum. Við erum að skoða hvort við getum endurskipulagt það,“ segir Bogi og vísar þar til þess tjóns sem af hlaust þegar félagið þurfti að kyrrsetja MAX 737-vélarnar.

Félagið reynir einnig að afstýra því að það þurfi að kaupa inn þær vélar sem samið hafði verið um. „Það eru þessir tvær þættir sem þurfa að nást samningar um og ef þetta er ekki ásættanlegt að okkar mati þurfum við að fara einhverjar aðrar leiðir en viðræðurnar ganga ágætlega,“ segir hann en fer ekki nánar út í hvaða leiðir það geta verið.

Icelandair flýgur nú meira en félagið gerði í miðjum faraldri.
Icelandair flýgur nú meira en félagið gerði í miðjum faraldri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðallega í viðræðum við lífeyrissjóðina

Bogi segir að viðræður við lánadrottna hafi ekki snúið að því að breyta skuldum þeirra í hlutafé. Þá segir hann að fyrst og fremst hafi hingað til verið rætt við íslenska fjárfesta um þátttöku í útboðinu, einkum þá sem þegar eru stærstu hluthafar félagsins. Það eru íslenskir lífeyrissjóðir.

Spurður hvort til umræðu sé að lánadrottnar eins og bankar eignist hlut í félaginu gegn niðurfellingu skulda segir Bogi: „Við höfum ekki verið að einbeita okkur að því í þessum viðræðum. Þetta snýst mest um að aðlaga greiðslur til lánadrottna og leigusala að áætluðu sjóðsstreymi félagsins. Viðræðurnar snúast að mestu um það og þokast áfram.“

Þó að aðallega hafi verið rætt við íslenska fjárfesta eru erlendir ekki útilokaðir úr dæminu. „Við höfum fundið fyrir áhuga erlendis frá en við höfum ekki hafið neinar viðræður þar. Við höfum bara fyrst og fremst verið að einbeita okkur að íslenska markaðnum. Útboðið og salan eru að sjálfsögðu ekki hafin en við höfum verið í sambandi við okkar stærstu hluthafa í þessu ferli öllu saman,“ segir Bogi.

Sjóðir sterkari en búist var við

Í ársfjórðungsuppgjöri félagsins sem var birt áðan kom fram að fram­boð í farþega­flugi hjá Icelanda­ir hafi dregist sam­an um 97% í öðrum árs­fjórðungi og farþegum fækkaði um 98%. Á sama tíma tvö­földuðust flug­tím­ar í frakt­flugi í fjórðungn­um. 

„Þetta hefur gengið betur en við áttum von á í vor. Sjóðsstaðan hefur haldist sterkari í gegnum sumarið en við áttum von á. Við höfum einhverjar vikur til viðbótar en við þurfum að klára þessa endurfjármögnun og endurskipulagningu á efnahagsreikningi sem fyrst,“ segir Bogi.

Einnig kom fram að tap fé­lags­ins hafi numið 12,3 millj­örðum króna. Ein­skipt­is­kostnaður vegna kór­óna­veirunn­ar nam 5,9 millj­örðum króna í öðrum árs­fjórðungi 2020 og 30,3 millj­örðum króna á fyrstu sex mánuðum árs­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK