„Svarið verður mjög afdráttarlaust“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mun senda frá sér yfirlýsingu seinna í dag eða á morgun þar sem kröfum framkvæmdastjóra og forstöðumanns Samtaka atvinnulífsins um að hann dragi fullyrðingar sínar til baka og biðji þá afsökunar verður svarað.

Biðst afsökunar á að hafa eyðilagt partíið

Ragnar Þór kveðst ekki ætla að biðja þá afsökunar í svari sínu. „Ef það er eitthvað sem ég mun biðja afsökunar á er það kannski fyrst og fremst að hafa eyðilagt partíið," segir Ragnar, sem hefur farið yfir málið með lögmönnum um helgina. „Svarið verður mjög afdráttarlaust." 

„Þetta er komið á það stig að þegar menn eru farnir að hóta lögsóknum verður að svara þessu með lögformlegum hætti.“

Ragnar sagði við Fréttablaðið í síðustu viku að margt benti til þess að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá samtökunum, hefðu beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðir endurfjármögnuðu félagið Lindarvatn ehf. árið 2016. Þeir segja ásakanirnar ósannar og vilja að Ragnar Þór dragi fullyrðingar sínar til baka og biðji hlutaðeigandi afsökunar, ella sé „óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir órökstuddum dylgjum hans íhugi réttarstöðu sína“.

Fara lengra með málið 

Aðspurður segir Ragnar Þór að til standi að fara lengra með málið. „Þegar málin komast á þetta stig þarf maður að skipta svolítið um gír. Ég reikna með að það muni birtast upplýsingar í okkar svari sem hafa ekki komið fram áður,“ greinir hann frá. Farið verður yfir allar tímalínur og staðreyndir skoðaðar. Eftir það verður það í höndum eftirlitsaðila löggjafans að taka ákvörðun um hvort talin verði frekari þörf á að skoða málið.

„Eins og ég hef margbent á er verið að benda á ákveðnar grunsemdir og óeðlileg tengsl. Ég hef verið að hvetja til þess að málið verði rannsakað frekar og skoðað af þar til bærum aðilum,“ segir og hann og bætir við að málinu sé hvergi nærri lokið. „Við erum að undirbúa varnir í málinu líka. Við erum við öllu búnir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK