Gengislækkun krónu eykur verðbólgu

mbl.is/Júlíus

Gengi krónunnar hefur lækkað um 14% frá áramótum og hefur gengislækkunin haft áhrif á verðbólguna þar sem verð á matvöru, fatnaði, húsgögnum og heimilisbúnaði hefur hækkað. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag.  

„Gengi krónunnar tók að lækka þegar farsóttin barst til landsins líkt og gjaldmiðlar margra annarra ríkja í svipaðri stöðu. Snemma í maí hafði það lækkað um ríflega 12% frá febrúarlokum en það hækkaði á ný er leið á mánuðinn, mögulega vegna aukinnar bjartsýni í kjölfar árangursríkra sóttvarnaaðgerða og mikillar fækkunar smita hérlendis auk væntinga um kröftugri bata í ferðaþjónustu en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Sú gengishækkun gekk hins vegar til baka yfir sumarmánuðina og var viðskiptavegið gengi krónunnar ríflega 12% lægra rétt fyrir útgáfu þessara Peningamála en í lok febrúar og ríflega 14% lægra en um áramótin,“ segir í Peningamálum

Hefur selt erlendan gjaldeyri fyrir 29 milljarða

Seðlabankinn hefur beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði í meiri mæli í ár en undanfarin tvö ár. Það sem af er ári nam hrein sala bankans á erlendum gjaldeyri tæplega 29 milljörðum króna og er hlutdeild bankans í heildarveltu á markaðnum um fimmtungur.

Verðbólga mældist 2,5% á öðrum fjórðungi þessa árs eða lítillega meiri en gert var ráð fyrir í maí þegar spáð var að hún yrði 2,4%. Vísitalan hækkaði um 0,15% milli mánaða í júlí og mældist ársverðbólga 3% sem er aukning um 0,8 prósentur frá útgáfu Peningamála í maí.

„Meginskýring á aukningu verðbólgu í júlí er að sumarútsölur höfðu töluvert minni áhrif til lækkunar en á sama tíma í fyrra. Gæti það stafað af áhrifum gengislækkunar krónunnar en aukin útgjöld til neysluvara líkt og fjallað var um hér að framan kunna einnig að eiga hlut að máli. Verð innfluttrar vöru hefur á heildina hækkað um 5% milli ára. Verð á innlendum vörum hefur einnig hækkað nokkuð að undanförnu og var 4,4% hærra í júlí en á sama tíma fyrir ári.

Líklegt er að aukin eftirspurn eftir tilteknum vöruflokkum þegar miklar samkomutakmarkanir voru við lýði á fyrri hluta ársins, t.d. matvöru, hafi leitt til meiri verðhækkana. Einnig hefur borið á skorti á tilteknum vörum vegna framleiðsluhnökra og tengdra afleiðinga COVID-19-heimsfaraldursins sem hefur að öðru óbreyttu hækkað vöruverð.

Ekki er þó líklegt að áhrifin verði mikil á mælda verðbólgu þar sem áætlað er að þessi áhrif geti komið fram í tæplega fimmtungi af grunni vísitölunnar. Á móti vó hins vegar að verðbólga hjaðnaði á mælikvarða undirliða þar sem eftirspurn eftir vöru eða þjónustu dróst saman eða var ekki í boði vegna sóttvarnaaðgerða,“ segir í Peningamálum.

Samkvæmt sumarkönnunum Gallup gera heimili og fyrirtæki ráð fyrir að verðbólga verði um 3-3,5% eftir ár sem er 0,5 prósentum meiri verðbólga en þau væntu í síðustu könnun. Verðbólguvæntingar þeirra til lengri tíma hafa hins vegar ýmist haldist óbreyttar eða lækkað. Verðbólguvæntingar markaðsaðila, bæði til skamms og lengri tíma, hafa einnig haldist óbreyttar við 2,5% verðbólgumarkmiðið. 

„Athygli vekur að allir mælikvarðar á verðbólguvæntingar eru ýmist óbreyttir eða lægri en á sama tíma fyrir ári þrátt fyrir nokkru lægra gengi krónunnar.“

Horfur eru á nokkru meiri verðbólgu á næstunni en spáð var í maí. Skýringuna má rekja til meiri verðbólgu í upphafi spátímans auk þess sem slakinn í þjóðarbúskapnum virðist minni nú en gert var ráð fyrir í maí. Þá hefur alþjóðlegt olíu-, hrávöru- og matvælaverð tekið hraðar við sér en þá var spáð.

Olíu- og hrávöruverð er þó enn töluvert lægra en fyrir ári sem lækkar innlendan aðfangakostnað og dregur úr verðbólgu.

Spáð er að verðbólga verði um 3% að meðaltali út þetta ár en mikill slaki í þjóðarbúinu og lítil alþjóðleg verðbólga gera það að verkum að hún hjaðnar snemma á næsta ári þegar áhrif gengislækkunarinnar hafa fjarað út. Spáð er að hún verði um 2% að meðaltali á seinni hluta spátímans [2023].

Mikil óvissa er hins vegar um þessar horfur en eins og venjan er í uppfærðum spám bankans er áhættumat grunnspárinnar ekki endurskoðað. Taldar eru um helmingslíkur á að verðbólga verði á bilinu 1-3¼% að ári liðnu og á bilinu 1-3½% í lok spátímans,“ segir í Peningamálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK