Mesti samdráttur frá upphafi mælinga

Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 9,3% að raungildi á 2. ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Það er mesti samdráttur sem mælst hefur síðan ársfjórðungslegar mælingar hófust hér á landi.

Í mælingum á landsframleiðslu 2. ársfjórðungs gætir merkjanlegra áhrifa af heimsfaraldri COVID-19 og þeim aðgerðum sem gripið var til í þeim tilgangi að sporna gegn útbreiðslu hans hér á landi og á heimsvísu.

Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 dróst saman um 5,7% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Stundum er notað sem þumalputtaregla að ef þjóðarframleiðsla dregst saman að raunvirði tvo ársfjórðunga í röð þá sé hagkerfið í kreppu. Það er samkvæmt því hægt að segja að kreppa sé skollin á hér á landi.

Útflutningur dróst saman um 28,6%

Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 2,4%. Einkaneysla dróst að raungildi saman um 4,0%, samneysla jókst um 2,5% en fjármunamyndun dróst saman um 8,5%. Útflutningur dróst saman um 28,6% en innflutningur um 22,9%.

Takmarkanir á ferðalögum fólks á milli landa höfðu veruleg áhrif á bæði inn- og útflutning þjónustu á tímabilinu en í niðurstöðunum gætir einnig fjölþættra áhrifa samkomubanns á eftirspurn eftir vöru og þjónustu af ýmsu tagi hér á landi. Samkvæmt mælingum á vinnumagni, sem alla jafna gefa sterka vísbendingu um framleitt magn vöru og þjónustu til endanlegra nota, dróst heildarfjöldi vinnustunda saman um 11,3% prósent á tímabilinu.

Á 2. ársfjórðungi drógust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, saman um 7,1% frá sama tímabili árið 2019. Samdráttur í einkaneyslu mældist 8,3%, vöxtur samneyslu mældist 3,0% en fjármunamyndun dróst saman um 18,7%.

Umtalsverður samdráttur mældist í bæði inn- og útflutningi á 2. ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Útflutningur dróst saman um 38,8% en samdráttur í innflutningi mældist 34,8%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 5,4 milljarða króna á tímabilinu.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst að raungildi saman um 9,1% milli 1. ársfjórðungs 2020 og 2. ársfjórðungs 2020.

Beðið eftir því að komast inn í vínbúð.
Beðið eftir því að komast inn í vínbúð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einkaneyslan dróst saman um 8,3%

„Þrátt fyrir að samdráttur í landsframleiðslu Íslands mælist sögulega mikill benda fyrstu niðurstöður alþjóðlegs samanburðar til þess að samdrátturinn hafi víða verið umtalsvert meiri. Á það sérstaklega við um ríki sem talin eru hafa farið verst út úr heimsfaraldri Covid-19 á síðustu mánuðum. Þannig mældist samdrátturinn innan Evrópusambandsins í heild 11,7% að raungildi á 2. ársfjórðungi miðað við fyrri fjórðung, 20,4% í Bretlandi, 18,5% á Spáni og 13,8% í Frakklandi.

Á sama tímabili mældist 4,5% samdráttur í Finnlandi, 5,1% samdráttur í Noregi, 7,4% samdráttur í Danmörku og 8,3% samdráttur í Svíþjóð. Í öllum tilvikum er um að ræða fyrstu bráðabirgðatölur sem hagstofur viðkomandi ríkja hafa birt á undanförnum vikum og eru settar fram með fyrirvara um aukna óvissu í niðurstöðum,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

Á tímabilinu dróst einkaneysla saman um 8,3% frá sama tímabili árið 2019. Gætir þar augljósra áhrifa af heimsfaraldri COVID-19 og þeim aðgerðum sem gripið var til hér á landi í þeim tilgangi að sporna gegn útbreiðslu hans.

Sala á lyfjum og áfengi jókst

Samdráttur í útgjöldum Íslendinga erlendis nam 83,2% að raungildi á tímabilinu en áhrifa til lækkunar einkaneyslu gætir í flestum neysluflokkum. Í nokkrum undirliðum mældist þó aukning, svo sem í neyslu lyfja og annarra lækningarvara, rafrænni þjónustu og áfengi. Í nokkrum undirliðum gætir beinna áhrifa samkomutakmarkana. Má þar nefna samdrátt í kaupum á þjónustu fyrirtækja sem var gert að loka tímabundið á tímabilinu, s.s. snyrtiþjónustu. Samdráttur í kaupum á bifreiðum mældist sömuleiðis umtalsverður á tímabilinu eða tæplega 35% að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2019.

Í heild dróst fjármunamyndun saman um 18,7% á 2. ársfjórðungi frá sama tímabili fyrra árs. Þrátt fyrir myndarlegan vöxt í fjárfestingu hins opinbera á sviði vegaframkvæmda mældist 17,3% samdráttur í fjármunamyndun hins opinbera á 2. ársfjórðungi samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Skýrist það meðal annars af grunnáhrifum í undirliðnum önnur opinber fjárfesting, sem jókst umtalsvert á 2. ársfjórðungi 2019 þegar ríkið fékk nýjan Herjólf afhentan og fjárfesting vegna hans var gjaldfærð. Ef fjárfesting ríkisins í Herjólfi er undanskilin jókst fjárfesting ríkisins um 15% að raungildi á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2019. Fjárfesting sveitarfélaga dróst hins vegar saman um 9% frá sama tímabili fyrra árs og mælist nokkru minni á fyrri hluta þessa árs en áætlanir sveitarfélaganna gerðu ráð fyrir.

Enn eru byggingarframkvæmdir í gangi en fjárfestingar á íbúðamarkaði hafa …
Enn eru byggingarframkvæmdir í gangi en fjárfestingar á íbúðamarkaði hafa stórlega dregist saman. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mesti samdráttur í íbúðafjárfestingum í 10 ár

Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði dróst saman um 21,3% á 2. ársfjórðungi sem er mesti samdráttur sem mælst hefur síðan á 2. ársfjórðungi árið 2010. Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt á tímabilinu er umfang byggingarframkvæmda vegna íbúðarhúsnæðis enn mikið í sögulegu samhengi, eða sem nemur 5,2% af landsframleiðslu ársfjórðungsins.

Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur íbúðafjárfesting dregist saman um 13,6% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Eins og fram kom í fréttatilkynningu vegna niðurstaðna fyrir 1. ársfjórðung hefur hægt talsvert á skráningu nýrra byggingarleyfa og íbúða á fyrri byggingarstigum að undanförnu, sem alla jafna telst góð vísbending um vænta þróun íbúðafjárfestingar.

Atvinnuvegafjárfesting dróst saman um 17,8% á tímabilinu en fyrstu sex mánuði ársins dróst atvinnuvegafjárfesting saman um 4,7% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2019. Fjármunamyndun atvinnuvega án skipa, flugvéla, stóriðju og tengdra greina dróst saman um 11,3% á 2. ársfjórðungi frá sama tímabili fyrra árs.

Samanlagður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var 5,4 milljarðar króna á 2. ársfjórðungi 2020, borið saman við jákvæðan 8,7 milljarða króna jöfnuð á sama tíma árið 2019, á gengi hvors árs. Þar sem innflutningur dróst minna saman en sem nam samdrætti í útflutningi á 2. ársfjórðungi 2020 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu.

Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 9,2 milljarða króna á 2. ársfjórðungi 2020. Vöruútflutningur nam 149,2 milljörðum króna og vöruinnflutningur 158,4 milljörðum króna á sama tímabili.

Auknar álbirgðir í landinu

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 3,7 milljarða króna á 2. ársfjórðungi 2020. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 66,4 milljörðum króna og innflutningur á þjónustu 62,6 milljörðum króna.

Fyrstu sex mánuði ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 1,1 milljarð króna en var jákvæður um 43,5 milljarða króna á sama tíma árið 2019.

Á 2. ársfjórðungi jókst heildarverðmæti birgða um 6,5 milljarða króna á verðlagi ársins borið saman við síðasta ársfjórðung. Mest mældist aukningin í birgðastöðu áls en birgðir sjávarafurða jukust einnig nokkuð á tímabilinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK