SÍ skoðar lífeyrissjóði vegna útboðs Icelandair

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er með útboð Icelandair og ákvarðanatöku í kringum það til skoðunar. Þetta upplýsti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri um á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun. Sagði Ásgeir að skoðunin tengdist ákvörðunum sjóða og tók síðar fram að þar ætti hann við lífeyrissjóði. Þá sagði hann sína skoðun að skoða þyrfti allt kerfið upp á nýtt.

Sagði Ásgeir að Seðlabankinn hefði fylgst vel með útboðinu og kallað eftir gögnum eftir atvikum og nú væri verið að kanna framkvæmd útboðsins. „Að svo komnu máli er ekki hægt að segja neitt meira um þessa könnun annað en hún er farin af stað. Ég get heldur ekki tjáð mig um einstaka sjóði, bara að þessi könnun sé farin af stað,“ sagði Ásgeir.

Þyrfti að skoða allt kerfið upp á nýtt

Hann bætti þó við að fjármálaeftirlit Seðlabankans teldi að útboðið sem slíkt og framvinda þess gæfi tilefni til umhugsunar um fyrirkomulag við ákvarðanatöku þegar kæmi að einstökum fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Þannig væri ekki nýtt. Fjármálaeftirlitið hefði, þegar stofnunin var enn ekki komin undir Seðlabankann í fyrra, sent bréf á lífeyrissjóðina þar sem fram kom að eftirlitið teldi samþykktir sjóðanna ekki uppfylla nægjanlega ströng skilyrði til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna. Sagði hann þetta bréf nú hafa verið ítrekað.

Ásgeir sagði svo að sín skoðun væri að skoða þyrfti allt kerfið upp á nýtt. „Eins og staðan er núna. Við erum með stjórnir lífeyrissjóða sem eru skipaðar af hagsmunaaðilum sem eru að taka ákvarðanir um fjárfestingar, sem að mínu viti ættu að vera teknar annarsstaðar,“ sagði hann. Benti hann á að í lífskjarasamningunum sem nú væru í gildi væri gert ráð fyrir að lagaumgjörð í kringum lífeyrissjóðina yrði endurskoðað og taldi hann tilefni til að skoða þessi mál þar.

Hætta á að hagsmunir sjóðsfélaga ráði ekki för

Á fundinum var Ásgeir spurður nánar út í þessi ummæli og hvort stjórnirnar ættu ekkert að koma að fjárfestingum. Sagði hann svo ekki vera. „Eðlilegt að stjórnir ákvarði fjárfestingastefnu og hafi skoðun á hverju sjóðirnir eigi að fjárfesta í. En þegar kemur að einstökum fjárfestingakostum þá er ákveðin hætta á að aðrir hagsmunir en hagsmunir sjóðsfélaga ráði förum,“ sagði Ásgeir. Vísaði hann til þess að lífeyrissjóðakerfið hefði verið byggt upp í ákveðinni sátt milli aðila vinnumarkaðarins og „byggt á ákveðnu heiðursmannasamkomulagi á milli þeirra, sem mér finnst svona má velta fyrir sér hvort haldi,“ sagði hann.

Nær til bæði verkalýðsfélaga og atvinnurekenda

Ásgeir tók fram að hann teldi að verkalýðsfélög og einstakir atvinnurekendur gætu auðvitað haft skoðanir á fjárfestingum almennt, en það yrði að vera almennt og ekki um einstakar fjárfestingar.

Að lokum tók Ásgeir fram að könnunin næði til beggja aðila sem kæmu að stjórnun lífeyrissjóðanna, það er, bæði til verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK