Rangt er að tala um yfirstandandi efnahagskreppu sem ferðaþjónustukreppu. Þótt áhrifin komi vissulega mjög þungt niður á henni sé ljóst að kreppan hafi víðtæk áhrif á atvinnulífið í heild sinni. Þetta segir Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is.
Vísar Ásdís til könnunar sem Gallup gerði meðal stjórnenda 448 stærstu fyrirtækja landsins og birt var í dag. Samkvæmt könnuninni vænta 43% svarenda þess að aðstæður í efnahagslífinu muni versna á næstu sex mánuðum en 26% telja þær munu batna.
„Þessi könnun endurspeglar hversu djúp efnahagskreppan er sem við erum stödd í og eru væntingar stjórnenda að hún muni dýpka enn frekar á næstu mánuðum,“ segir Ásdís.
Aðeins átta prósent stjórnenda telja að skortur sé á starfsfólki í fyrirtæki þeirra, en 92 prósent telja framboðið nægt, og draga Samtök atvinnulífsins þá ályktun að fækkun starfa sé fram undan í öllum atvinnugreinum.
„Þessi niðurstaða er í takt við spá Vinnumálastofnunar um að atvinnuleysið muni aukast næstu mánuði,“ segir Ásdís.