Nikkei-hlutabréfavísitalan í Tókýó hækkaði um 2,1% dag í kjölfar þess að Joe Biden fór með sigur af hólmi í bandarísku forsetakosningunum. Hækkanir einkenna fjármálamarkaði í dag og eins olíu- og gjaldeyrismarkaði.
Óvissa hefur ríkt undanfarna daga um niðurstöður forsetakosninganna og litaði það stöðuna á mörkuðum í síðustu viku. Á laugardag varð síðan ljóst að Biden sigraði og í dag hafa markaðir rétt úr kútnum. Ekki síst vegna væntinga um að Bandaríkjaþing muni nú koma sér saman um aðgerðir til aðstoðar við bandaríska hagkerfið sem hefur orðið illa úti vegna kórónuveirufaraldursins.
Auk Tókýó hafa helstu hlutabréfavísitölur í Hong Kong Sjanghaí, Sydney, Singapúr, Seúl, Wellington og Taípei hækkað um meira en 1%.
Verð á West Texas Intermediate-hráolíu hefur hækkað um 2,6% og Brent-Norðursjávarolía hefur hækkað um 2,5%.