Akbar Al Baker, forstjóri ríkisflugfélags Katar, segist ekki vænta þess að fluggeirinn nái sér hratt á strik nú þegar hillir undir lok kórónuveirufaraldursins. FT greinir frá þessu og segir viðhorf Als Bakers stangast á við bjartsýni stjórnenda flugfélaga í Evrópu og Bandaríkjunum sem hafa spáð miklu lífi í flugsamgöngum á komandi mánuðum.
Bendir Al Baker á að ekki sé að fullu ljóst hversu langvarandi vernd fæst með bóluefnum við SARS-CoV-2 og að ekki sé hægt að útiloka frekari smitbylgjur.
Þá sagði Al Baker jafnframt að æskilegt væri að ríki og alþjóðasamtök ættu í nánara samstarfi um þróun svokallaðra bólusetningarvegabréfa í stað þess að þróa eigin lausnir og reglur hvert í sínu horninu. „Hvert land er að smíða sitt eigið forrit og regluverk, og þegar upp er staðið mun það gera takmarkað gagn,“ sagði hann. „Ef hvert land er með sínar reglur, hvert með sitt kerfi og hvert með sínar kröfur, þá mun það rugla farþega í ríminu og flugfélögin sömuleiðis.“