Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,71% milli mánaða í apríl og mælist verðbólga nú 4,6% samanborið við 4,3% í mars. Hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir 0,27% hækkun vísitölunnar milli mánaða og segir í Hagsjá deildarinnar að hækkunin hafi komið mikið á óvart. Það sem kom mest á óvart var að fasteignaverð hækkaði mun meira en deildin hafði átt von á.
„Það sem kom mest á óvart í tölunum var að reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5% milli mánaða (0,40% áhrif á vísitölu). Þetta skýrir að mestu að vísitalan hækkaði meira en við bjuggumst við, en við spáðum 0,3% hækkun milli mánaða (0,05% áhrif á vísitölu),“ segir í Hagsjá hagdeildar Landsbankans.
Mikil hækkun reiknaðrar húsaleigu skýrist af mjög mikilli hækkun á húsnæðisverði sem hækkaði um 2,7% milli mánaða samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Húsnæðisverð hefur nú hækkað um 4% á síðustu tveimur mánuðum sem er mjög mikil hækkun á svo stuttum tíma að sögn hagdeildar Landsbankans.
Síðustu tólf mánuði hefur markaðsverð húsnæðis, eins og Hagstofan mælir hana, hækkað um 10,6%. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 16,2%, fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 9,9% og fasteignir utan höfuðborgarsvæðisins 7,9%.
Af þeim útgjaldaliðum, sem meðalheimili finnur mest fyrir dags daglega, sést að matarkarfan hefur hækkað nokkuð meira en vísitala neysluverðs síðustu tólf mánuði, eða um 5,8%. Föt og skór (+4,5% milli ára) og húsnæðiskostnaður (+4,4% milli ára) hafa hækkað svipað og vísitalan. Bensín hefur hækkað um 10%, segir meðal annars í Hagsjánni.
„Óhætt er að segja að óvissan um þróun verðbólgunnar næstu mánuði hafi aukist við þessa mælingu. Hún var töluvert hærri en við áttum von á og því viðbúið að verðbólgan muni leita eitthvað seinna niður í átt að markmiði en við gerðum áður ráð fyrir. Framlag húsnæðis og þjónustu til tólf mánaða hækkunarinnar er að aukast. Á móti kemur að krónan hefur styrkst það sem af er ári sem ætti að vinna að einhverju leyti á móti innlendum verðbólguþrýstingi,“ segir enn fremur en Hagsjána er hægt að lesa í heild hér.