Alþýðusamband Íslands heldur áfram að hvetja fólk til að sniðganga flugfélagið Play og fordæma vinnubrögð þeirra.
Undanfarna daga hafa Play og ASÍ staðið í deilum sem snúa að launakjörum starfsmanna flugfélagsins. Heldur Play því fram að ASÍ sé að halda úti ósönnum ásökunum hvað varðar launatölur en í yfirlýsingu flugfélagsins sem kom út fyrir hádegi kemur meðal annars fram að „Play borg[i] ekki lægstu laun í landinu eins og ASÍ segir. [...] ASÍ hefur haldið fram að launatengdar greiðslur Play séu ekki samkvæmt lögum, það er rangt og hefur alfarið verið hrakið í yfirlýsingu Play og sjálfstæðri umfjöllun Viðskiptablaðsins.“
Drífa Snædal, forseti ASÍ, brást í kjölfarið við með yfirlýsingu þar sem kemur fram að sambandið standi enn og aftur fast á því að ekki sé farið rangt með launatölur.
„Íslenska flugstéttarfélagið og Play hafa ekki viljað láta kjarasamninga sína af hendi en ASÍ hefur þá undir höndum og staðfestir hér enn á ný að þar er kveðið á um að grunnlaun séu 266.500 krónur fyrir nýliða. Play mun halda áfram að þyrla upp ryki og dreifa öðrum upplýsingum á valda fjölmiðla og senda frá sér misvísandi yfirlýsingar. Eina leiðin fyrir Play að sýna fram á að þar sé starfsfólki í flugi boðið upp á mannsæmandi laun er að leggja fram undirritaðan kjarasamning sem gerður er við raunverulegt stéttarfélag vinnandi fólks,“ segir meðal annars í yfirlýsingu ASÍ.
Drífa segir þá kjörin í þessum samningi lægri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði og að deilurnar við Play snúist um „grundvallaratriði á íslenskum vinnumarkaði og ef rangt er á haldið geta afleiðingarnar orðið afdrifaríkar fyrir allan almenning.“
Kveðst Drífa þá ekki síður hafa orðið fyrir vonbrigðum hvað varðar vinnubrögð Play, kallar hún þessar aðgerðir niðurbrot á skipulagðri hreyfingu launafólks.
„Ef launafólk á viðskipti við fyrirtækið og fjárfestar veita því brautargengi er um leið verið að leggja blessun sína yfir þessi vinnubrögð. Þess vegna enduróma ég enn og aftur samþykkt miðstjórnar ASÍ. Nei við Play!“