Kæra gegn Facebook um einokunarstöðu þeirra á samfélagsmiðlamarkaðnum var felld niður fyrr í kvöld eftir að dómarinn taldi gögnin í málinu ekki fullnægjandi.
Í desember á síðasta ári stefndi viðskiptaeftirlit bandarísku alríkisstjórnarinnar (FTC) ásamt 46 af ríkjum Bandaríkjanna Facebook fyrir brot á samkeppnisreglum. Var meðal annars farið fram á að samfélagsmiðillinn afsalaði sér eignarhaldi á miðlunum Instagram og WhatsApp sökum þess að Facebook var búið að koma sér í einokunarstöðu á samfélagsmiðlamarkaðnum.
James Boasberg, dómarinn í málinu, taldi fyrirliggjandi gögn ekki sýna fram á með skýrum hætti hversu mikil völd Facebook hefði í raun og veru. Var málið talið byggjast á óljósum staðhæfingum um að samfélagsmiðillinn stjórnaði meira en 60% af markaðnum án þess þó að skilgreint væri hvaða mælingar átt væri við.
Facebook hefur enn ekki sent frá sér tilkynningu vegna málsins en virði fyrirtækisins hefur hækkað og stendur nú í meira en einni billjón bandaríkjadala, sem gera ríflega 123 billjónir íslenskra króna.