Samkvæmt ríkisreikningi var afkoma ársins 2020 neikvæð um 144 milljarða samanborið við jákvæða afkomu upp á 42 milljarða árið 2019. Tekjur án fjármunatekna námu 802 milljörðum og rekstrargjöld námu 990 milljörðum.
Hrein fjármagnsgjöld námu 46 milljörðum og hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins nam 90 milljörðum.
„Á vormánuðum 2020 brustu allar meginforsendur áætlana í efnahags- og ríkisfjármálum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá þegar hafði dregið úr þenslu sem myndaðist samhliða hröðum vexti ferðaþjónustunnar. Ferðamönnum hafði þá fækkað, m.a. vegna minni umsvifa og síðar gjaldþrots flugfélagsins WOW air. Minni efnahagsumsvifa sá fljótt stað í verri afkomu ríkissjóðs. Engu að síður var útlit fyrir að hagkerfið myndi fljótt ná vopnum sínum að nýju í upphafi árs. Þegar komið var vel inn á árið 2020 var hins vegar ljóst að Ísland, líkt og heimsbyggðin öll, stæði frammi fyrir djúpstæðu efnahagsáfalli,“ segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.
„Í krafti sterkrar stöðu ríkissjóðs þurfti ekki að skerða þjónustu hins opinbera og tilfærslukerfin voru varin þrátt fyrir mikið tekjufall. Þannig var staðinn vörður um grunnþjónustu ríkisins á sama tíma og gripið var til umfangsmikilla efnahagsaðgerða til að mæta áhrifum faraldursins með það að markmiði að tryggja afkomu heimila og veita fyrirtækjum skjól og viðspyrnu. Ráðist var í umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum og útgjöld til rannsókna og þróunar aukin verulega til þess að örva umsvif og skapa forsendur fyrir öflugum efnahagsbata að faraldrinum loknum. Áhrif þessara aðstæðna og nauðsynlegra aðgerða sjást glögglega á niðurstöðu ríkisreiknings 2020,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, um niðurstöður ríkisreiknings.