Krónan mun höfða mál gegn ríkinu 2. september nk. og fara fram á ríflega milljarð króna í bætur vegna meints hagnaðarmissis á árunum 2015 til 2018.
Er það vegna meints brots á EES-samningi vegna innflutningshamla á fersku kjöti, eggjum og mjólkurvöru. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá.
Flóki Ásgeirsson, lögmaður Krónunnar, segir að leiða megi líkur að því að málið verði fordæmisgefandi, þar sem fjöldi annarra fyrirtækja deilir markaði með Krónunni.
Ríkið hafnaði bótakröfu Krónunnar endanlega hinn 23. júní og verður málið höfðað í kjölfarið. Ríkinu hefur verið gert kunnugt um það og verður stefna í málinu birt fyrir þingfestingu.
Bæturnar sem Krónan fer fram á, um milljarður króna, eru niðurstaða dómkvadds matsmanns sem fékkst í ársbyrjun og vildi ríkið ekki fallast á þá upphæð. Í því ljósi verður matsmálið höfðað sem tekið verður fyrir í september.
Bótaskylda ríkisins hafði áður verið viðurkennd í máli Krónunnar gegn ríkinu árið 2017 og var þar gerð dómsátt en ágreiningurinn í málinu sem nú er höfðað snýr að bótafjárhæð ríkisins.
„Verði þessi bótakrafa samþykkt vil ég ítreka það að við hjá Krónunni munum skila þeirri fjárhæð beint til viðskiptavina okkar,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Hingað til hefur sú leið verið farin í sambærilegum málum að krefja ríkið um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði en ekki fá bættan hagnaðarmissi fyrirtækja.