Spá óbreyttum stýrivöxtum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 1,0% við næstu vaxtaákvörðun þann 25. ágúst.

Eins og fram hefur komið, ákvað SÍ í maí að taka fyrsta skrefið í hækkun stýrivaxta með hækkun um 0,25 prósentustig en stýrivextir höfðu verið óbreyttir í 0,75% frá því í nóvember á síðasta ári.

Í fundargerð kom fram að allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að hækka vexti bankans til þess að viðhalda kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu. Rætt var um hvort hækka ætti þá um 0,25 eða 0,5 prósentustig. Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,25 prósentustigvoru þau að þótt innlend eftirspurn væri kröftugri en búist hefði verið við og efnahagshorfur hefðu batnað væri samt sem áður mikið atvinnuleysi og batinn brothættur. Því væri mikilvægt að taka varfærin skref, að því er hagfræðideildin greinir frá. 

Hún segir ennfremur, að verðbólgan sé enn talsvert yfir verðbólgumarkmiðinu og útlit fyrir að hún verði það áfram fram undir mitt næsta ár. Hagstofan birtir ágústmælingu vísitölu neysluverðs (VNV) mánudaginn 30. ágúst. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,36% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir lækkar verðbólgan úr 4,3% í 4,2%.

„Undir eðlilegum kringumstæðum væri nefndin eflaust að íhuga næsta skref í hækkunarferlinu. Nýjasta Covid-bylgjan hefur hins vegar sett strik í reikninginn og líklegt er að efnahagsbatinn næstu mánuði verði hægari en ella. Við teljum að vegna óvissu um efnahagsleg áhrif áframhaldandi sóttvarnaraðgerða vegna faraldursins, m.a. á ferðaþjónustugeirann,velji nefndin að halda stýrivöxtum óbreyttum a.m.k. fram í október,“ segir hagfræðideildin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK