Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni í byrjun október á fundi sínum ákveða að hækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig. Segir greiningin að þróttmikill efnahagsbati og þrálát verðbólga muni líklega verða helstu rök fyrir vaxtahækkuninni.
Ef af þessu yrði væri það þriðja vaxtahækkunin frá því í maí, en þá hækkaði bankinn stýrivexti um 0,25 prósentustig. Aftur hækkaði bankinn stýrivextina svo í ágúst, en þá var einnig um sömu breytingu að ræða og í maí, eða um 0,25 prósentustig.
Stýrivextir eru í dag 1,25%, en ef af spá Íslandsbanka yrði færu þeir upp í 1,5%. Þeir fóru lægst niður í 0,75% frá því í nóvember 2020 til maí 2021.