Markaðurinn ekki að fara að hlaupa mikið lengra

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri seg­ir að pen­inga­stefnu­nefnd álykti að þær aðgerðir sem bank­inn hafi gripið til að und­an­förnu eigi að hægja á mikl­um hækk­un­um sem hafa verið á fast­eigna­markaði og að hægja muni á mikl­um hækk­un­um þar, sem hef­ur að mestu haldið uppi verðbólgu hér­lend­is und­an­farið. Sagði hann að „markaður­inn sé ekki að fara að hlaupa neitt mikið lengra,“ og átti þá við verðhækk­an­ir um­fram það sem eðli­legt væri.

Þetta kom fram á kynn­ing­ar­fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar vegna vaxta­ákvörðunar nefnd­ar­inn­ar, en í dag ákvað bank­inn að hækka stýri­vexti um 0,25 pró­sentu­stig þannig að þeir eru í dag 1,5%.

Seg­ir um tíma­bundna þætti að ræða

Á kynn­ing­ar­fund­in­um í dag, sem var lík­lega með þeim styttri sem nefnd­in hef­ur haldið, var tví­veg­is spurt út í fast­eigna­markaðinn. Ásgeir sagðist telja að Seðlabank­inn væri þar að ná ár­angri í að ná verðbólgu niður og að ástandið und­an­farið væri tíma­bundið.

Sagði Ásgeir að und­an­farið hefði verið mik­il spenna á markaðinum. Eign­ir hefðu verið að fara yfir ásettu verði og veltu­hraði hefði auk­ist. „Þetta eru tíma­bundn­ir þætt­ir,“ ít­rekaði hann og sagði að fast­eigna­verð í vísi­tölu neyslu­verðs kæmi jafn­an hratt inn og gæti að sama skapi farið hratt út. „Við erum ekki endi­lega að gera ráð fyr­ir að markaður­inn verði áfram á þess­ari ferð,“ bætti hann við og sagðist telja að þau fjár­mála­stöðug­leika­tæki sem beitt hefði verið und­an­farið myndu halda verðbólg­unni í skefj­um.

„Það er búið að taka í ýms­ar brems­ur“

Vísaði hann þar meðal ann­ars til tak­mark­ana sem fjár­mála­stöðug­leika­nefnd setti á veðlána­hlut­fall og svo vaxta­hækk­an­ir bank­ans und­an­farið. Rann­veig Sig­urðardótt­ir vara­seðlabanka­stjóri sat einnig fund­inn og tók und­ir orð Ásgeirs. „Það er búið að taka í ýms­ar brems­ur,“ sagði hún til að lýsa ástand­inu.

Ásgeir sagði að frá töl­um Sam­taka iðnaðar­ins og eft­ir sam­töl við verk­taka mætti sjá að mik­il áhersla væri lögð á að klára þau verk­efni sem væru í bygg­ingu og það myndi von­andi hægja á þeirri eft­ir­spurn sem hef­ur verið.

Loðnu­kvóti já­kvæðar frétt­ir sem beri þó að horfa á með nei­kvæðu hug­ar­fari

Ásgeir var einnig spurður út í frétt­ir af aukn­um loðnu­kvóta og sagði hann það já­kvæðar frétt­ir, en líkt og flest­ir hag­fræðing­ar liti hann alltaf á já­kvæðar frétt­ir með nei­kvæðu hug­ar­fari. Því væri rétt að horfa til þess að þessi aukni kvóti gæti aukið þrýst­ing­inn í kerf­inu. Sagði hann spurður hvort nefnd­in hefði tekið þess­ar frétt­ir með við ákvörðun stýri­vaxt­anna að all­ar upp­lýs­ing­ar væru metn­ar þegar stýri­vext­ir væru ákveðnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK