Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningastefnunefnd álykti að þær aðgerðir sem bankinn hafi gripið til að undanförnu eigi að hægja á miklum hækkunum sem hafa verið á fasteignamarkaði og að hægja muni á miklum hækkunum þar, sem hefur að mestu haldið uppi verðbólgu hérlendis undanfarið. Sagði hann að „markaðurinn sé ekki að fara að hlaupa neitt mikið lengra,“ og átti þá við verðhækkanir umfram það sem eðlilegt væri.
Þetta kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunar nefndarinnar, en í dag ákvað bankinn að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig þannig að þeir eru í dag 1,5%.
Á kynningarfundinum í dag, sem var líklega með þeim styttri sem nefndin hefur haldið, var tvívegis spurt út í fasteignamarkaðinn. Ásgeir sagðist telja að Seðlabankinn væri þar að ná árangri í að ná verðbólgu niður og að ástandið undanfarið væri tímabundið.
Sagði Ásgeir að undanfarið hefði verið mikil spenna á markaðinum. Eignir hefðu verið að fara yfir ásettu verði og veltuhraði hefði aukist. „Þetta eru tímabundnir þættir,“ ítrekaði hann og sagði að fasteignaverð í vísitölu neysluverðs kæmi jafnan hratt inn og gæti að sama skapi farið hratt út. „Við erum ekki endilega að gera ráð fyrir að markaðurinn verði áfram á þessari ferð,“ bætti hann við og sagðist telja að þau fjármálastöðugleikatæki sem beitt hefði verið undanfarið myndu halda verðbólgunni í skefjum.
Vísaði hann þar meðal annars til takmarkana sem fjármálastöðugleikanefnd setti á veðlánahlutfall og svo vaxtahækkanir bankans undanfarið. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri sat einnig fundinn og tók undir orð Ásgeirs. „Það er búið að taka í ýmsar bremsur,“ sagði hún til að lýsa ástandinu.
Ásgeir sagði að frá tölum Samtaka iðnaðarins og eftir samtöl við verktaka mætti sjá að mikil áhersla væri lögð á að klára þau verkefni sem væru í byggingu og það myndi vonandi hægja á þeirri eftirspurn sem hefur verið.
Ásgeir var einnig spurður út í fréttir af auknum loðnukvóta og sagði hann það jákvæðar fréttir, en líkt og flestir hagfræðingar liti hann alltaf á jákvæðar fréttir með neikvæðu hugarfari. Því væri rétt að horfa til þess að þessi aukni kvóti gæti aukið þrýstinginn í kerfinu. Sagði hann spurður hvort nefndin hefði tekið þessar fréttir með við ákvörðun stýrivaxtanna að allar upplýsingar væru metnar þegar stýrivextir væru ákveðnir.