Réttindin flutt út og Latabæ slitið

Latibær var hugarfóstur Magnúsar Scheving.
Latibær var hugarfóstur Magnúsar Scheving. Ljósmynd/Eddi

Stjórn Latabæjar ehf. hefur ákveðið að slíta félaginu og hefur skilanefnd verið skipuð yfir búinu. Félagið hefur verið starfandi frá árinu 1996, en það sá meðal annars um framleiðslu, sölu og markaðssetningu á þáttunum um Latabæ, sem á ensku kölluðust LazyTown. Verður vörumerkið nú hluti af móðurfélaginu, en Latibær er í eigu Turner broadcasting system Europe ltd. í Bretlandi.

Þau Jónas Rafn Tómasson og Eleanor Caroline Browne voru skipuð í skilanefndina, en Browne var stjórnarmaður í félaginu.

Í samtali við mbl.is segir Jónas að ákvörðunin um slitin sé alfarið hluthafans og að slitaferlið sé hefðbundið formlegt ferli sem þurfi að fara í við slit. Segir hann að einhver takmörkuð starfsemi hafi verið í félaginu undanfarin ár, en að almennt sé svo farið að stjórn félaga hafi klárað öll útistandandi mál sem vitað er um áður en óskað er eftir skiptum félags.

Í auglýsingunni er skorað á lánardrottna að lýsa kröfum sínum í búið, en boðað hefur verið til fundar hluthafa og mögulegra lánardrottna 6. desember. Segir Jónas að hann eigi von á því að hægt verði að klára slitin þá, enda ekki vitað um útistandandi mál.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2020 voru nettótekjur Latabæjar af höfundarrétti 217 þúsund Bandaríkjadalir á síðasta ári. Þá var söluhagnaður 3.305 þúsund dalir og fjármagnstekjur 666 þúsund dalir, en félagið átti kröfur og lán á tengda aðila upp á 14.567 þúsund dali og veltufjármuni upp á 448 þúsund dali. Samtals voru tekjur ársins 4.161 þúsund dalir, en það nemur um 550 milljónum króna. Eignir þess eru metnar á tæplega tvo milljarða en skuldir voru aðeins um 27 þúsund dalir, eða 3,5 milljónir. Skráð hlutafé er hluti af eignunum og er í ársreikningunum metið á 8.825 þúsund dali, eða um 1,16 milljarða.

Samtals framleiddi Latibær 78 samnefnda þætti, en þeir voru sýndir á árunum 2004-2014. Upphaflega voru þættirnir sýndir á Rúv og Nickeldon-barnarásinni, en árið 2011 keypti Turner fyrirtækið og voru þáttaraðir þrjú og fjögur sýndar á rásinni Cartoonito.

Með slitum félagsins núna verða réttindi Latabæjar flutt út til móðurfélagsins í Bretlandi og má því segja að ákveðinni sögu Latabæjar á Íslandi sé nú formlega lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK