Hlutafé Kjarnans miðla ehf., sem rekur samnefndan fréttavef og gefur út tímaritið Vísbendingu, var í lok síðasta árs aukið um 25 milljónir króna. Eyrún Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Kjarnans, segir í skriflegu svari til ViðskiptaMogga að núverandi hluthafar hafi lagt félaginu til fjármagn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um framlag hvers hluthafa en listi yfir hluthafa hefur þó ekki tekið miklum breytingum.
Samkvæmt gögnum sem skilað var inn til fyrirtækjaskrár skattsins má sjá að hluti hlutafjáraukningarinnar kemur til þar sem skuldum félagsins, við stærstu hluthafa, er breytt í hlutafé. Þar á meðal eru 400 þúsund króna skuld við félagið Miðeind ehf., sem er félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, fjárfestis og fv. gjaldkera Samfylkingarinnar, og 500 þúsund króna skuld við HG80 ehf., sem er í eigu Hjálmars Gíslasonar athafnamanns og eiganda GRID. Þá var 400 þúsund króna skuld við Birnu Önnu Björnsdóttur, sem er þriðji stærsti hluthafi Kjarnans, einnig breytt í hlutafé.
Rekstur Kjarnans hefur gengið erfiðlega frá því að félagið var stofnað árið 2013 og félagið hefur skilað tapi frá upphafi. Ársreikningur síðasta árs liggur ekki fyrir en árið 2020 nam tap Kjarnans um 6,1 milljón króna. Samanlagt tap á árunum 2014 til 2020 nemur um rúmlega 60 milljónum króna. Tekjur félagsins hafa þó aukist og námu árið 2020 tæplega 78 milljónum króna. Þær jukust þá um rúmar 18 milljónir á milli ára en félagið fékk þá um 9,3 milljónir króna í styrk frá ríkissjóði. Þá fékk félagið um 14,4 milljónir króna í ríkisstyrk á síðasta ári. Eigið fé var um 9,3 milljónir í árslok 2020.