Flest bendir til þess að 1,7 milljónir ferðamanna muni leggja leið sína til landsins í ár. Er það mun meiri fjöldi en gert var ráð fyrir í upphafi sumars.
Þetta má lesa úr nýbirtum gögnum Seðlabanka Íslands sem hefur gefið út ritið Peningamál sem fylgdi tilkynningu um 75 punkta hækkun stýrivaxta.
Þar er bent á að síðast þegar Peningamál komu út í maí síðastliðnum hafi áætlanir bankans gengið út frá því að ferðamenn yrðu um 1,4 milljónir á yfirstandandi ári.
„Í júlí höfðu 870 þúsund ferðamenn komið til landsins það sem af er ári og voru komur þeirra í júlímánuði orðnar fleiri en í sama mánuði árið 2019. Útlit er því fyrir enn kröftugri bata en gert var ráð fyrir í maí og að útflutningstekjur af ferðaþjónustu hafi verið meiri í sumar en þá var áætlað,“ segir í Peningamálum.
Þannig hefur spáin glæðst um 300 þúsund manns á aðeins þremur mánuðum. Þá segir bankinn nú að á næsta ári sé gert ráð fyrir að ferðamenn verði 1,9 milljónir talsins en í maí síðastliðnum var talið að þeir yrðu 1,7 milljónir.
Segja höfundar Peningamála að mörg jákvæð teikn séu á lofti varðandi ferðaþjónustuna og viðgang hennar.
„Leitum að gistingu og flugi til Íslands á leitarvél Google hefur haldið áfram að fjölga auk þess sem eldgosið í Meradölum hefur aukið áhuga ferðamanna á komum til landsins.“
Fjallað var nánar um efni Peningamála fyrr í dag.