Staða Íslands í samhengi orku- og loftslagsmála var til umræðu á ráðstefnu í Washington DC í vikunni, en hún var skipulögð af hugveitunni Atlantic Council Global Energy Center, Grænvangi og sendiráði Íslands í Washington.
Meðal þátttakenda voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, en þær ræddu meðal annars markmið Íslands í loftslagsmálum og varðandi sjálfbæra orkunýtingu.
Meðal ræðumanna var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sem rifjaði upp markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Þau hefðu undirritað Parísarsamkomulagið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt sett sér metnaðarfyllra markmið um að hverfa frá jarðefnaeldsneyti fyrir 2040. Landsvirkjun væri í opinberri eigu og ynni að þessum markmiðum. Finna þurfi út hvernig þau geti orðið að veruleika en til þess þurfi að svara því hvaðan orkan á að koma.
Til að draga úr losuninni þurfi almenningur að taka upp einfaldari lifnaðarhætti og samfélögin að nota og framleiða orku á skilvirkari hátt. Það sé þó aðeins hluti af lausninni enda þurfi ný orkuöflun að koma til, ef draga á úr vægi jarðefnaeldsneytis með nýrri endurnýjanlegri orku. Á Íslandi séu miklir möguleikar til vindorkuvinnslu sem sé ákjósanleg sem þriðja stoð í orkukerfinu. Þ.e. ásamt jarðhita og vatnsafli. Landsvirkjun undirbúi slíka uppbyggingu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu um helgina.