Þeir lágu vextir sem voru í gegnum faraldurinn hafa komið heimilum mjög vel og byggt upp eiginfjárstöðu. Þá tókst vel til með peningastefnuna og er þetta í fyrsta skipti þar sem virkilega var hægt að beita vöxtum gegn hagsveiflu og halda stöðugleika. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis nú í morgun.
Rifjaði hann upp að áður hafi hagstjórnin öll verið í gegnum gengisfellingar, verðbólgu og sveiflur í launum. Með auknu vægi nafnvaxta hér á landi hafi nú tekist að nota vaxtabreytingar til að mæta hagsveiflum og með því sjáist t.d. ekki sveiflur í atvinnu og atvinnuleysi.
„Hvernig okkur heppnaðist að mæta samdrætti með peningastefnunni og svo hvernig tekist að halda jafnvægi með hækkun vaxta, felur í sér gríðarlega mikinn velferðarauka fyrir þessa þjóð. Að hægt sé að beita peningastefnunni til þess að halda stöðugleika,“ sagði Ásgeir.
Svaraði Ásgeir þar spurningum frá Kristrúnu Frostadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem spurði meðal annars hvort eðlilegt væri að sjá svo miklar vaxtahækkanir og –lækkanir og hvort að of lítið aðhald í ríkisfjármálum væri ástæða þess að bankinn hefði þurft að bregðast við með jafn afgerandi hætti. Einnig spurði hún um áhrif peningastefnunnar á eignamarkaði, sérstaklega mikla hækkun á húsnæðisverð, og hvort það hefði áhrif á misskiptingu í samfélaginu.
Ásgeir sagði að eftir tíma lágra vaxta þar sem margir hafi komið í fyrsta skipti á fasteignamarkaðinn væri nú tólf mánaða verðbólga upp á um 9%. Margir hafi verið með óverðtryggð lán á sínum eignum og í fyrsta skipti í 40 ár séu heimilin að upplifa neikvæða raunvexti. „Sjáum líka 9% verðbólga á föstum höfuðstól, það er 9% lækkun á raunvirði. Sem er ansi hröð eignarmyndun og kannski illa farið með sparifjáreigendur í þessu landi,“ sagði Ásgeir og bætti við: „Þessir lágu vextir komu heimilunum mjög vel og hafa byggt upp eiginfjárstöðu.“
Sagði hann að samhliða þessu væri nú auðvelt fyrir fólk að breyta lánum sínum úr óverðtryggðum í verðtryggð ef greiðslubyrði hækkaði um of. Þannig væru lántökugjöld nú ekki hlutfallsleg heldur föst krónutala.
Sagði Ásgeir jafnframt að Seðlabankinn fylgdist vel með eiginfjárstöðu í kerfinu og að hún væri nokkuð sterk og að eiginlega engin lán væru í vanskilum. Sagði hann skuldir heimilanna vera um 150% af ráðstöfunartekjum og að hlutfallið hefði ekkert vaxið að undanförnu. Til samanburðar nefndi hann að hlutfallið væri um 250-300% í Noregi og í Svíþjóð.