„Sumarið fór ekki eins og við ætluðum“

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum mjög bjartsýn eftir að við birtum uppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs, en sumarið fór ekki eins og við ætluðum og það hefur áhrif á tekjur félagsins.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við mbl.is. Í gær var greint frá því að tap félagsins á þriðja ársfjórðungi þess árs hafi numið 2,9 milljónum Bandaríkjadala. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði nam 1,3 milljónum dala. Heildartap félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur því um 28,4 milljónum dala, eða rúmlega fjórum milljörðum króna. Seint í gærkvöldi var tilkynnt að Play hyggðist sækja sér nýtt hlutafé að andvirði 2,3 milljaða króna.

„Við fögnum því að vera með jákvæða EBITDU, en á sama tíma stillum við væntingum okkar í hóf með heildarafkomuna. Júlí gekk vel en síðsumars sáum tekjurnar minnka,“ segir Birgir.

Ýmsir þættir höfðu áhrif á tekjur

Afkoma flugfélaga er oft mæld út frá því sem kallað er einingartekjur og einingarkostnaður. Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á þá liði, svo sem flugvélategundir og fjármögnun flugvéla, það hvernig farþegarýmum er háttað, hvaða þjónusta er veitt, kostnaður við eldsneyti, fluglengd og fleira. Play hafði áður gefið út að væntingar hafi verið um að einingartekjur félagsins yrðu 6,8 Bandaríkjadalir, en í uppgjöri félagsins fyrir þriðja ársfjórðung kemur fram að þær eru 5,6 dalir.

Aðspurður nánar um tekjurnar nefnir Birgir nokkra þætti sem höfðu áhrif á minnkandi tekjur.

„Við sáum bókanir koma inn í kerfin hjá okkur sem skiluðu sér þó ekki í keyptum miðum. Það skýrist af því að Ísland var svo gott sem uppselt, hótel fullbókuð og svo framvegis. Við áttum von á því að geta tekið meira af farþegum til landsins en það er ljóst að eftirspurnin var meiri en framboðið þegar horft er á ferðaþjónustuna í heild sinni,“ segir Birgir.

Félagið lagði því aukna áherslu á svonefnda via-umferð farþega, þ.e. sölu miða til farþega sem eru eru að fljúga á milli Evrópu og Bandaríkjanna, en að sögn Birgir felast minni tekjur í þeirri sölu.

„Hitt atriðið snýr að hliðartekjum félagsins. Sem dæmi má nefna að fólk var ekki að greiða fyrir töskur eða aðra þjónustu. Við sáum fréttir af því í allt sumar að það væri erfið staða á flugvöllum, þá sérstaklega í Evrópu en líka í Bandaríkjunum þar sem mikil áhersla var lögð á að athuga hvort að fólk væri með bólusetningaskírteini og aðra pappíra. Þetta hafði þau áhrif að fólk ferðaðist léttar ef svo má segja, þ.e. það tók ekki með sér mikinn farangur. Fyrir lággjaldaflugfélög eins og okkur þá skipta slíkar hliðartekjur töluverðu máli og það er vont ef þær skila sér ekki,“ segir Birgir.

Þessu til viðbótar segir Birgir að miklar sveiflur á eldsneytisverði hafi haft veruleg áhrif á rekstur félagsins á tímabilinu.

Sáu ekki ástæðu til að senda afkomuviðvörun

- Nú er ljóst að tekjurnar eru nokkuð undir væntinginum, bæði þegar horft er til þess sem þegar hefur verið birt af ykkar hálfu og ekki síst útboðslýsingarinnar í aðdraganda hlutafjárútboðsins í fyrravor. Hefðuð þið ekki þurft að senda frá ykkur afkomuviðvörun?

„Það er rétt að taka fram að útboðslýsingin felur í sér sviðsmynd en ekki afkomuspá í þeim skilningi. Það eru síðan ýmsir þættir sem hafa haft áhrif á tekjur félagsins. Við höfum eftir birtingu uppgjöra gefið út væntingar okkar til næstu tímabila,“ segir Birgir.

„Við vorum mjög bjartsýn þegar við birtum uppgjör annars ársfjórðungs en síðan þróast hlutirnir með ákveðnum hætti eins ég var að fjalla um hér. Við höfum þó ekki séð ástæðu til að rjúfa þögnina á milli birtingu uppgjöra með viðvörunum.“

Við birtingu ársuppgjörs Play fyrir síðasta ár kom fram í fjárfestakynningu að gera mætti ráð fyrir hagnaði á síðari hluta þessa árs. Nú er orðið ljóst að svo verður ekki, heldur hefur rekstrarspá félagsins verið færð niður eftir birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungs í gær.

Nýtt hlutafé styrki reksturinn

Sem fyrr segir stendur til að auka hlutafé félagsins um 2,3 milljarða. Tilkynnt var í gærkvöldi að stjórn félagsins hefði safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé frá tuttugu stærstu hluthöfum Play.

- Það hefur ekki verið fjallað um það áður að það sé þörf á auknu hlutafé inn í félagið, þvert á móti þá hefur sérstaklega verið tekið fram í fjárfestakynningum að svo sé ekki. Er þörfin fyrir nýtt hlutafé það aðkallandi nú?

„Það er í raun ekki þannig að við „þurfum“ nýtt hlutafé, við treystum okkur alveg til að fara inn í veturinn með það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar nú og það tækjuflæði sem við sjáum fyrir á næstu mánuðum,“ svarar Birgir að bragði.

„Aftur á móti viljum við styrkja félagið. Það er enginn forstjóri í flugfélagi sem fer brattur inn í veturinn en þegar við horfum lengra fram í tímann erum við bjartsýn á framhaldið. Við erum að bæta við áfangastöðum og viljum efla reksturinn til muna. Við munum nýta aukið hlutafé til þess.“

Þá segist Birgir bjartsýnn á að Play muni vaxa enn frekar, að félagið muni styrkja stöðu sína í leitarvélum og bókunarkerfum og auka hliðartekjur þegar horft sé til lengri tíma.

„Það er erfitt að bera rekstur Play saman við rekstur flugfélaga sem eru rótgróin og eiga sér langa sögu. Þar má sem dæmi nefna Icelandair, sem er flott félag og sló tekjumet nú í sumar. Við erum ungt félag og erum enn að hasla okkur völl. Það mun taka tíma. Við höfum mögulega verið of brött eða full bjartsýn á að komast hraðar inn í dreifileiðir en það tekur lengri tíma en maður hefði ætlað,“ segir Birgir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK