Vilja selja og dreifa rafeldsneyti á Íslandi

Skeljungur og Gallon skrifuðu undir viljayfirlýsingarnar.
Skeljungur og Gallon skrifuðu undir viljayfirlýsingarnar. Ljósmynd/Aðsend

Félögin Skeljungur og Gallon hafa undirritað viljayfirlýsingar við danskan fjárfestingasjóð um að skoða möguleika fyrirtækjanna tveggja á að kaupa rafeldsneyti af sjóðnum og dreifa því og selja, meðal annars til íslenskra notenda.

Þetta eru fyrstu viljayfirlýsingar sinnar tegundar sem gerðar eru á Íslandi. Sjóðurinn, sem nefnist CI Energy Transition Fund I, er nýr sjóður í eigu Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) og er í tilkynningunni sagður stærsti sjóður heims sem tileinkaður sé fjárfestingum í verkefnum tengdu grænu rafeldsneyti.

Á vísindavef HÍ segir að rafeldsneyti sé heiti yfir nothæft eldsneyti sem búið er til úr vetni, við rafgreiningu á vatni og koltvíoxíð. Dæmi um slíkt sé framleiðsla á metanóli.

Stefna á framleiðslu á Reyðarfirði

Í tilkynningunni segir enn fremur að markmið stjórnvalda, um orkuskipti í sjávarútvegi og skipaflutningum, náist því aðeins að skipafélög og útgerðir geti skipt út jarðefnaeldsneyti fyrir aðra og umhverfisvænni orkugjafa.

„CIP, Skeljungur og Gallon hafa trú á því að rafeldsneyti sé leiðin til að hætta losun koltvísýrings í siglingum. Til að það takist þarf innviði, sem sumir hverjir eru til staðar, en aðra þarf að byggja frá grunni.

CIP stefnir á framleiðslu rafeldsneytis í Orkugarði Austurlands á Reyðarfirði, en orkugarðurinn er samstarfsvettvangur um nýtingu grænna tækifæra á Austurlandi. Markmið hans er að stuðla að aukinni verðmætasköpun og byggja upp þekkingu á orkuskiptum á svæðinu.“

Gallon rekur innviði fyrir móttöku, geymslu og afgreiðslu eldsneytis úr birgðastöðvum Skeljungs vítt og breitt um landið.

Rafeldsneyti muni leika stórt hlutverk

Haft er eftir Þórði Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Skeljungs, að félögin tvö vinni markvisst að því að þróa vöruframboð sitt í átt að aukinni sjálfbærni.

„Allt í kringum okkur eru ríki og fyrirtæki að leita leiða til að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir aðra og umhverfisvænni orkugjafa og það er stefna okkar að vera traustur samstarfsaðili atvinnulífsins í orkuskiptum,“ segir Þórður.

„Við teljum að rafeldsneyti eigi eftir að spila stórt hlutverk í því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa í samgöngum og öðrum orkufrekum iðnaði og þar með draga verulega úr losun koltvíoxíðs í andrúmsloftið.

Ísland er í einstakri aðstöðu til að ná markverðum árangri í orkumálum, en til að það geti raungerst þarf að fara í fjárfestingar, meðal annars í innviðum tengdum geymslu og dreifingu á rafeldsneyti – þessar fjárfestingar þurfa að byggja á reynslu og þekkingu. Þetta er því mikilvægt og þarft verkefni fyrir atvinnulífið og samfélagið allt. Við erum stolt af því að gerast samstarfsaðilar CIP í þessari vegferð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka