Stjórn Íslandsbanka samþykkti í dag að hefja samrunaviðræður við Kviku banka, en Kvika óskaði sem kunnugt er eftir viðræðum við Íslandsbanka um samruna í síðustu viku.
Ef af samruna verður, mun sameinaður banki vera sá stærsti á landinu.
Í tilkynningu frá Ísalndsbanka keur fram að stjórn bankans telji að í samruna félaganna geti falist sóknar- og hagræðingartækifæri og að viðskiptavinir sameinaðs félags geti notið þess í breiðara vöruframboði, aukinni þjónustu og lægri kostnaði.
Þá kemur fram að með sameiningu myndi efnahagsreikningur Íslandsbanka stækka um tæplega 20% og tryggingarekstur Kviku auka fjölbreytni í tekjugrunni bankans.
„Telur stjórn bankans ávinning geta falist í samrunanum fyrir bæði hluthafa og viðskiptavini beggja félaga. Bankarnir tveir starfa á mikilvægum mörkuðum og leggur Íslandsbanki áherslu á að þeir viðhaldi samkeppnislegu sjálfstæði sínu á meðan ferlinu stendur. Leggur bankinn jafnframt áherslu á opin og hreinskiptin samskipti við viðeigandi eftirlitsaðila í ferlinu,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að samruni félaganna sé háður samþykki hluthafafundar beggja félaganna og viðeigandi eftirlitsaðila.