Orð Bjarna að engu orðin

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar. Samsett mynd

Alvarleg brot voru framin við sölu ríkisins á eignarhlut í Íslandsbanka og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ber ábyrgð á þeim.

Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, innt eftir viðbrögðum við skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um samkomulag við Íslandsbanka um að bankinn greiði 1,2 milljarða króna í sekt vegna framkvæmdar á útboði á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum í mars í fyrra.

Spurning hvað samstarfsflokkar gera

„Það sem blasir við er að hér er um mjög alvarleg brot að ræða. Sektin er rökstudd með því að það sé þessi mikli alvarleiki málsins, fjöldi brota og umfang sem skili svona hárri sekt,“ segir Þorbjörg Sigríður og bætir við að það sé augljóst að framkvæmdin á sölunni hafi farið gegn lögum.

Hún bendir á viðtal við Bjarna Benediktsson í Kastljósi 14. nóvember síðastliðnum þar sem hann ræddi um að pólitísk ábyrgð hans á sölunni fælist í því að standa vel að sölu ríkiseigna og að lagalega beri hann ábyrgð á framkvæmd bankasölunnar.

„Þá sagði hann í því samhengi að ekkert í skýrslu ríkisendurskoðunar sýndi fram á að lög hefðu verið brotin og við heyrðum forsætisráðherra endurflytja þá möntru fjármálaráðherrans aftur og aftur,“ segir Þorbjörg Sigríður.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Orð fjármálaráðherra um vel heppnaða sölu eru með þessu að engu orðin. Orð fjármálaráðherra um að ekkert bendi til þess að lög hafi verið brotin eru sömuleiðis að engu orðin. Spurningin snýst ekki lengur um hvort lög voru brotin og heldur ekki um hvort fjármálaráðherra beri á endanum ábyrgð á þessum lögbrotum, það hefur hann meira að segja sjálfur sagt,“ heldur hún áfram og segir spurninguna núna snúast um hvernig samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins ætli að bregðast við „þessum mjög svo alvarlegu lögbrotum við sölu á eignum ríkisins“ sem hafi bitnað á hagsmunum almennings.

Þarf að hætta að vera í felum 

Hvað ætti fjármála- og efnahagsráðherra að gera núna?

„Fjármálaráðherra þarf að byrja á því að hætta að vera felum. Stíga fram og tjá sig,“ svarar Þorbjörg Sigríður og bætir við að Bjarni sé sjálfur í afar vandræðalegri stöðu, enda í skoðun hjá umboðsmanni Alþingis vegna hagsmunaárekstra. Hagsmunaárekstrar séu einmitt vörumerki sölunnar.

„Það er morgunljóst í mínum huga að hér voru framin alvarleg lögbrot sem fjármálaráðherra ber ábyrgð á. Hann hlýtur að þurfa að útskýra það fyrir þjóðinni hvernig hann ætlar að axla þá ábyrgð.“

Ekki hefur náðst í Bjarna vegna málsins frá því að Íslandsbanki sendi frá sér tilkynninguna um samkomulagið við fjármálaeftirlitið á fimmtudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK