Stefán Einar Stefánsson
Staða stjórnar og bankastjóra Íslandsbanka er orðin slík að fátt getur komið í veg fyrir að þau þurfi að víkja. Þetta er mat blaðamannanna Harðar Ægilssonar og Andrésar Magnússonar en þeir eru gestir í nýjasta þætti Dagmála sem birtur verður á mbl.is í fyrramálið.
Hörður segir að vandi Birnu Einarsdóttur í kjölfar þess að Íslandsbanki gekkst undir sátt við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, sé orðinn slíkur að hún verði að öllum líkindum farin frá bankanum fyrir lok þessarar viku.
Andrés telur að vandi stjórnarinnar sé einnig stór í sniðum. Það eigi við um stjórnarformanninn Finn Árnason, rétt eins og aðra, jafnvel þótt hann hafi komið inn í stjórnina og tekið við formennsku í henni örfáum dögum áður en útboð á hlutum í bankanum fór fram í mars í fyrra.
Líkt og fram hefur komið fól sáttin milli Íslandsbanka og Seðlabankans í sér að fyrrnefndi bankinn greiðir 1.160 milljónir króna í sekt í ríkissjóð vegna alvarlegra brotalama og lögbrota sem framin voru innan bankans í tengslum við útboðið þar sem hæfum fjárfestum var gert kleift að kaupa ríflega 22% hlut í bankanum.
Hlutabréfaverð í Íslandsbanka hefur lækkað talsvert í Kauphöll það sem af er viku. Stendur það nú í 110 kr. á hlut en var 117 kr. í fyrrnefndu útboði sem nú hefur valdið einum mesta titringi á íslenskum fjármálamarkaði allt frá hruni bankakerfisins árið 2008.