Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, telur útilokað að halda áfram frekari einkavæðingu Íslandsbanka fyrr en búið er að ljúka málinu að því er varðar brot bankans við sölumeðferð eignarhluta ríkisins.
Í Sprengisandi á Bylgjunni í dag benti Lilja á að það yrði að ríkja traust eignarhald á banka. „Ef það er einhver vafi um slíkt þá nýtur hann ekki trausts,“ bætti hún við.
„Í mínum huga er alveg útilokað að halda áfram með frekari einkavæðingu fyrr en búið er að klára þennan hluta.“
Þá taldi hún forsvarsmenn Bankasýslu ríkisins hafa orðið sér til skammar á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í vikunni með því að halda því enn fram að um væri að ræða farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar sem einnig var gestur í Sprengisandi, sagði að skipan rannsóknarnefndar Alþingis væri mjög brýn til að fara ofan í saumana á málinu.
Þá sagði Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, sáttina hafa verið „miklu svakalegri“ en hann hefði nokkurn tíman búist við og ljóst væri að stjórnendur Íslandsbanka hefðu brugðist.
„Það virðist vera að við höfum ekkert lært frá hruni, ekki neitt,“ sagði Eyjólfur.
Lilja sagði skýrslu Fjármálaeftirlisins vera mjög ítarlega.
„Ég tel að við þurfum að fara í allt þetta mjög svipað og Norðurlöndin gerðu á sínum tíma. Þau losuðu um eignarhald í mjög hægfara skrefum og enn og aftur er þetta áminning að allt sem er ekki nógu gagnsætt verður ekki til þess fallið að auka traust.“