Bjarni: Til greina kemur að selja Landsbankann og Íslandspóst

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Eggert Jóhannesson

Enn liggur ekki fyrir hvaða ráðstafanir verða gerðar þegar Bankasýsla ríkisins verður lögð niður. Það er þó enn stefna ríkisstjórnarinnar að leggja stofnunina niður. Það staðfestir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála.

Bjarni segir að enn eigi eftir að ákveða hvað taki við. Aðspurður um það hvað hann hafi í hyggju segist Bjarni vera með frumvarp í undirbúningi sem ríkisstjórnin hafi þó ekki sammælst um ennþá.

„Það frumvarp gengur út á það að hætta að vera með sérstaka stofnun um eignarhlut [ríkisins] í fjármálafyrirtækjum og vera frekar með eina eignarsýslu fyrir hlutabréfin sem ríkið ætlar að vera með hjá sér,“ segir Bjarni. Þar myndir eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum, Isavia, Landsvirkjun, Íslandspóst og fleiri fyrirtækjum falla undir. Bjarni segir þó að sú stofnun þurfi ekki endilega að sjá um frekar sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, enda sérstök lög um það í gildi.

Ríkið gæti selt meirihluta í Landsbankanum

Aðspurður segir hann að það sé enn stefna ríkisstjórnarinnar að selja hlut sinn í Íslandsbanka, en ríkið á enn 42,5% hlut í bankanum.

„Ég held að það sé ágætis samhljómur um að sú sala sem er eftir ætti að fara fram í almennu útboði,“ segir Bjarni.

Bjarni er einnig spurður um afstöðu sína til þess að selja hlut ríkisins í Landsbankanum, sem ríkið á nær að fullu.

„Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að selja eignarhluti sína, ekki bara í Landsbankanum,“ segir Bjarni. Hann segir þó að hann telji rétt að ríkið haldi aftur um 40% hlut í bankanum til að tryggja , í ljósi þess að Ísland búi við frjálst flæði viðskipta og fjármagns, að einn kerfislega mikilvægur banki sé íslenskur og með höfuðstöðvar á Íslandi.

„Við værum komin með 80% af ávinningnum með því að losa um meirihlutann í Landsbankanum, fá þá fjármuni inn til annarra verkefna og værum búin að selja hlut okkar í Íslandsbanka,“ segir Bjarni.

Póstþjónusta þurfi ekki að vera ríkisrekin

Hann segist líka vera þeirrar skoðunar að ríkið ætti að selja önnur fyrirtæki og nefnir sérstaklega Íslandspóst í því samhengi.

„Þar eigum við bara að skilgreina þá þjónustu sem við teljum mikilvægt að veita og setja kvaðir á þann sem fær greitt fyrir þá þjónustu. Við þurfum ekki að vera með ríkisrekstur í þessari starfsemi,“ segir Bjarni. Hann segir jafnframt að hægt væri að bjóða út alþjónustubyrði félagsins.

„Þetta væri til dæmis hægt að gera með því að vera með nokkurra ára alþjónustusamning við Íslandspóst. Um leið og slíkur samningur hefur verið endurnýjaður er hægt að selja fyrirtækið. Þá liggur það bara fyrir að innan fárra ára fellur samningurinn niður og þá verður það fyrirtæki að taka þátt á móti öðrum sem mögulega vilja berjast um þá alþjónustu,“ segir Bjarni.

Erlendir aðilar gætu nýst Isavia vel

Þá nefnir Bjarni einnig Isavia í þessu samhengi. Hann segir að ríkið gæti selt hluta af félaginu en haldið eftir meirihluta. Með því væri hægt að losa um 50-70 milljarða króna til að nýta í önnur verkefni en um leið fengið alþjóðlega samstarfsaðila inn í rekstur flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og þekkinguna til að auka verðmæti flugvallarins.

Í hlaðvarpsþættinum er einnig rætt við Bjarna um samstarfið í ríkisstjórninni og það hvort að samstarfið hangi á bláþræði, um málefni hælisleitenda, helstu áskoranirnar sem eru framundan á vettvangi stjórnmálann, um ríkisfjármálin og það hvort að til greina komi að lækka skatta og margt fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK