Hildur Ýr Viðarsdótti hæstaréttarlögmaður segir það koma sér á óvart að fasteignakaupendur kynni sér seljendur nýbygginga ekki betur en raun ber vitni. Algengt sé að seljendur takmarki áhættu sína, til að mynda vegna hugsanlegra galla, með því að stofna sérstök félög um hverja byggingu. Kaupendur geti þannig lent í vandræðum með að fá tjón sitt bætt.
Hildur Ýr, sem er eigandi á Landslögum og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, er nýjasti viðmælandi Dagmála. Hún hefur víðtæka reynslu á sviði fasteignamála, hafandi kennt fasteignakauparétt um árabil við lagadeild Háskólans og sinnt fasteignamálum í lögmennskunni, hvort heldur sem er fyrir kaupendur, seljendur, tryggingarfélög eða framkvæmdaraðila.
„Þegar maður er að kaupa nýtt, þá er kannski verið að byggja húsið þegar maður skrifar undir kaupsamning, þannig að gallar eru ekki sjáanlegir. Jafnvel þó að það sé búið að reisa húsið, þá eru gallarnir ekki endilega komnir í ljós,“ segir Hildur Ýr og bætir við:
„Ef það koma upp gallar vill maður geta sótt þá eitthvert. Það er orðið algengara að seljendur nýbygginga séu með sérstök félög bara utan um viðkomandi húsbyggingu og þá eru kannski litlar eða engar eignir í félaginu."
Spurð hvers vegna þeir geri það segir Hildur Ýr það væntanlega vera einhvers konar áhættustýringu.
„Yfirleitt eru þetta einkahlutafélög með takmarkað ábyrgð, þannig að kaupandinn getur þá bara sótt á seljandann og ef það eru engir peningar í félaginu til þess að greiða bætur út á galla, þá er það bagalegt fyrir kaupendur.“
Hún segist alltaf dálítið hissa á því að neytendur séu ekki að spá meira í því hver seljandinn sé, þegar þeir eru jafnvel að setja aleigu sína í nýbyggingu.
„Er þetta einhver sem er búinn að vera á markaði lengi? Eru einhverjar eignir í þessu félagi? Þessi sjónarmið ættu að mínu mati að ráða ferðinni hjá neytendum.“