Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segist heyra nýjan tón úr peningastefnunefnd. Nefndin hækkaði stýrivexti í fjórtánda sinn í röð í morgun en Anna vonar, rétt eins og margir aðrir, að frekari vaxtahækkanir gerist ekki þörf.
„Ég held að við þurfum að vera vakandi fyrir því að [stýrivextir] séu ekki hækkaðir of mikið, því vaxtabreytingar taka sinn tíma að hafa áhrif í hagkerfinu,“ segir Anna Hrefna í samtali við mbl.is.
„Ég hef svolitlar áhyggjur af því að við höfum ekki enn séð áhrif þessara 13 vaxtahækkana sem á undan eru gengnar. Ég held að við þurfum að bíða og sjá hvaða áhrif þær munu hafa. Mér finnst ólíklegt að þær þurfi að ganga lengra.“
„Það virðist vera sértstakt markmið hjá nefndinni að ná verðbólgu niður í ásættanlegt horf, í aðdraganda komandi kjarasamninga,“ segir Anna. Spurð hvernig henni þyki þau markmið ganga svarar hún: „Þetta er allt að stefna í rétta átt.“
Aftur á móti segir hún að aukinn vaxtakostnaður heimila hafi greinilega neikvæð áhrif á komandi kjaraviðræður.
„Við erum að sjá að hagvöxtur var undir spám, einkaneyslan líka. Fjárfesting var líka talsvert undir spá Seðlabankans og ekki síst íbúðafjárfesting, sem við höfum verulegar áhyggjur af. Hættan er auðvitað sú að ef að það er of langt gengið í vaxtahækkunum þá mun það hafa slæm áhrif á íbúðamarkað, þegar fram líða stundir.“
„Mér fannst þó vera annar tónn í nefndinni,“ segir Anna og útskýrir að þegar stýrivextir hækkuðu í maí hafi peningastefnunefnd sagt í yfirlýsingu að útlit væri fyrir því að vextir yrðu hækkaðir enn meira.
„En að þessu sinni stendur: „vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram.“ Nefndin er að gefa til kynna að næstu ákvarðanir muni ráðast af þróun hagtalna, eins og alltaf, en það er ekki verið að gefa okkur þessar vætningar um að vextir verði hækkaðir frekar.“
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun að þrátt fyrir að búið væri að hækka vexti umtalsvert undanfarið, eða úr 0,75% upp í 9,25% í fjórtán síðustu vaxtaákvörðunum, þá myndi bankinn fylgjast vel með áhrifum vaxtahækkananna og hvort þær muni koma fram.