Nýsköpunarfyrirtækið Empower hefur sett hugbúnaðarlausnina Alda í loftið og stefnir á Evrópumarkað í fyrstu skrefum en fyrirhugað er að setja lausnina á markað í Bandaríkjunum á næsta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Empower.
Hugbúnaðarlausninni er ætlað að útrýma eitraðri vinnustaðamenningu, tryggja inngildingu og að hjálpa vinnustöðum að ná hámarksárangri með fjölbreyttum teymum. Alda-hugbúnaðurinn var þróaður og prófaður á Íslandi og býður upp á mælaborð, kannanir, markmiðasetningu, örfræðslu og aðgerðaráætlanir sérsniðna með gervigreind, að því er fram kemur í tilkynningu.
Alda býður upp á heildræna nálgun fyrir stjórnendur til að skapa heilbrigða vinnustaðamenningu með hjálp fjölbreytta teyma. Lausnin er gefin út á íslensku, ensku og pólsku til að byrja með en fyrirhugað er að fleiri tungumál bætist við á næstu vikum. Samstarfsaðilar í verkefninu eru Háskóli Íslands, Samtökin 78, og Þroskahjálp.
„Reynsla mín er sú að stjórnendur vilja sinna mannauðsmálum vel og telja iðulega að vinnuumhverfið stuðli að fjölbreytni og jákvæðri vinnumenningu. Með Öldu er hægt að styðjast við rauntímamælingar, sem sýna raunverulega stöðu og lagðar eru fram aðgerðir til betrumbóta,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Empower.