Liðin eru um 15 ár frá efnahagshruninu sem reið yfir árið 2008. Óhætt er að segja að margar breytingar hafi átt sér stað síðan þá. Skuldsetning heimila og fyrirtækja er mun lægri en hún var og miklar breytingar voru gerðar á regluverkinu á sínum tíma.
Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að margt hafi breyst í regluverkinu frá því að fjármálakrísan árið 2008 reið yfir. Hann segir að helstu breytingarnar snúi að strangari eiginfjárkröfum, breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki, innistæðutryggingum, fasteignalánalöggjöfinni og skilameðferðarlöggjöfinni. Það séu stærstu málin sem snúa að því að reyna að fyrirbyggja að það sem gerðist árið 2008 endurtaki sig.
„Það hefur heilmargt breyst. Það sem upp úr stendur eru þær hörðu eiginfjárkröfur sem gerðar eru til lánastofnana og ég tala nú ekki um þá fjóra eiginfjárauka sem eftirlitsyfirvöld geta lagt á. Síðan komu ný lög um fasteignalán til neytenda en þar var meðal annars gerð krafa um greiðslumat á lánum sem ekki var áður í löggjöf. Einnig var gerð breyting á innistæðutryggingalöggjöfinni,“ segir Yngvi og bætir við að skilameðferðartilskipunin hafi verið algjör nýjung en hún tekur á viðbrögðum ef til falls bankanna kæmi.
Yngvi segir að regluverkið á fjármálamarkaði sé að mörgu leyti of viðamikið. Forstöðumaður danska fjármálaeftirlitsins hafi vakið máls á því að það ætti að skoða að einfalda regluverkið.
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í gær.