Uppsagnir hjá Rapyd

Rapyd keypti Valitor árið 2022.
Rapyd keypti Valitor árið 2022. Ljósmynd/Valitor

Fjölda starfsmanna fjártæknifyrirtækisins Rapyd hefur verið sagt upp störfum. Þetta staðfestir forstjórinn Garðar Stefánsson í yfirlýsingu sem hann sendi mbl.is í kvöld.

DV greindi fyrst frá málinu og kveðst hafa heimildir fyrir því að á annan tug starfsmanna hafi fengið uppsagnarbréf. Garðar segir í orðsendingu til mbl.is að ekki sé um hópuppsögn að ræða þar sem fjöldi uppsagna nái ekki 10% fjölda starfsmanna fyrirtækisins.

Skipulagsbreytingar eftir samruna

Ástæða uppsagnanna er sögð vera kaup Rapyd á fyrirtækinu Valitor um mitt ár 2022 þar sem forsenda kaupanna var að Rapyd myndi selja frá sér talsverðan hluta af samningum við söluaðila á Íslandi til þriðja aðila. Það hafi þýtt að það þyrfti að fækka stöðugildum á Íslandi samkvæmt yfirlýsingu fyrirtækisins í dag. Með sameiningu Rapyd og Valitor á síðasta ári varð Ísland miðstöð greiðslumiðstöðvar Rapyd Europe í Evrópu.

„Þar sem þessum stóru umbreytingaverkefnum er nú svo gott sem lokið, hefur Rapyd tekið ákvörðun um að aðlaga starfsmannafjölda félagsins, sem felur í sér fækkun stöðugilda. Rapyd á Íslandi mun áfram hafa íslenskan markað í forgrunni og styrkja áfram þá öruggu greiðslumiðlun nú sem áður.

Félagið stendur sterkt með yfir 170 starfsmenn á Íslandi og heldur áfram að veita framúrskarandi og örugga greiðslumiðlun á Íslandi," segir í tilkynningunni frá fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK