Opna tvær verslanir í röð á Íslandi

Úlit vísar til skandinavísks uppruna. Ljósir litir, mjúkir tónar og …
Úlit vísar til skandinavísks uppruna. Ljósir litir, mjúkir tónar og viðaráferð kallast á við skjái og innréttingar. Anton Stenander

Fyrstu tvær verslanir sænsku tískufatakeðjunnar Gina Tricot á Íslandi verða opnaðar með tveggja daga millibili þann 23. og 25. nóvember næstkomandi, fyrst í Kringlunni í Reykjavík og síðan á Glerártorgi á Akureyri.

Albert Magnússon, eigandi Lindex á Íslandi og umboðsaðili Gina Tricot, segir í samtali við Morgunblaðið að Ísland sé fyrsta landið í heiminum þar sem Gina Tricot-verslanir eru opnaðar samkvæmt umboðsmannafyrirkomulagi.

Hann segir að eftir mikla yfirlegu með fasteignafélaginu Reitum hafi fundist frábær staðsetning í Kringlunni, á annarri hæð við aðalrúllustiga verslunarmiðstöðvarinnar. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar bæði í Reykjavík og fyrir norðan.

Albert Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir.
Albert Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir.

325 og 280 fermetrar

Albert segir að verslunin á Akureyri verði 325 fermetrar en Kringluverslunin 280. Útlit verslananna er að sögn Alberts „ofurnútímalegt“ og í stíl við verslun Gina Tricot við Drottninggatan í Stokkhólmi.

Útlitið vísar til skandinavísks uppruna vörumerkisins þar sem ljósir litir, mjúkir tónar og viðaráferð kallast á við skjái og innréttingar sem veita innblástur og draga fram nýjustu línur Gina Tricot, eins og Albert lýsir því.

Gina Tricot, sem er ein stærsta tískuvörukeðja Svíþjóðar með 150 verslanir í fjórum löndum, hefur rekið vinsæla vefverslun á Íslandi síðan í mars. Segir Albert að móttökur við netversluninni hafi farið fram úr björtustu vonum.

Skipt um dekk á leið um landið í kynningarferð með …
Skipt um dekk á leið um landið í kynningarferð með Lindex fyrir fimmtán árum síðan.

140 starfsmenn

Albert segir að með tilkomu verslananna tveggja í nóvember verði starfsmannafjöldi Lindex og Gina Tricot á Íslandi kominn upp í 140.

„Við erum með 120 manns í vinnu í dag og þarna bætast 20 við,“ segir Albert.

„Að opna tvær verslanir á sama tíma er áskorun fyrir okkur, en við erum reiðubúin,“ bætir Albert við og brosir.

Nánar um netverslunina segir Albert að sala Gina Tricot á netinu á Íslandi hafi vaxið um 550% frá því hann og eiginkona hans Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir tóku við tískumerkinu.

„Það er spenningur fyrir vörumerkinu enda er Gina Tricot eins konar „litla systir“ Lindex. Við Lóa lítum svo á að við séum að taka við nýju barni í heiminn sem okkur er treyst fyrir,“ segir Albert og brosir en bætir því við að fyrir „á heimilinu“ séu fjögur börn þeirra hjóna, einn hundur og 12 aðrar verslanir.

Kynningar á Gina Tricot eru þegar hafnar á netinu og í Kringlunni.

„Við skynjum mikla stemningu í kringum þetta. Við erum búin að stilla upp lukkuhjóli og Volvo Amazon-bifreið árgerð 1966 í Kringlunni. Fólk getur snúið lukkuhjólinu, bæði í Kringlunni og á netinu. Það skilar miklum áhuga. Fólk bíður í röðum eftir að komast að.“

Hið sænska Volvo-ökutæki er að sögn Alberts tilvísun í uppruna Lindex-ævintýris þeirra hjóna.

„Upphaflega þegar við fórum af stað með Lindex fyrir næstum 15 árum fórum við Lóa á Volvo Station í heimakynningar um land allt og seldum úr skottinu á bílnum,“ segir Albert að lokum en í tilefni opnunar Gina Tricot hyggjast hjónin endurtaka leikinn og fara í kynningarheimsóknir út á land í Volvo Amazon-bifreiðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK