Hugbúnaðarfyrirtækið PayAnalytics hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands 2023.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur meðal annars fram að hugbúnaður PayAnalytics leiði til mikils samfélagslegs ávinnings. Hann geri launagreiðendum kleift að taka ákvarðanir sem mismuna ekki. Það geri hann með því að færa flókið viðfangsefni yfir í aðgengilegar niðurstöður. Lausnin sé í notkun hjá mörgum stærstu fyrirtækjum heims og sé einnig notendavæn í meðalstórum og smærri fyrirtækjum, sem sé mikilvægt þar sem flest starfsfólk vinni hjá slíkum fyrirtækjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Verðlaunin eru veitt af Hugverkastofunni, Rannís, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði.
PayAnalytics hefur þróað jafnlaunahugbúnað sem gerir launagreiðendum kleift að mæla launabil, loka launabilum og halda launabilum lokuðum. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 með það að markmiði að þróa hugbúnað til að auðvelda stórum og smáum fyrirtækjum hvar sem er í heiminum að borga sanngjörn laun og vinna þannig gegn mismunun sem byggir á kyni, uppruna, aldri, kynhneigð eða öðrum þáttum sem ekki eiga að hafa áhrif á laun.
Hugbúnaður PayAnalytics er þegar notaður til að greina laun hjá 40% þeirra sem vinna á Íslandi og hefur náð hraðri útbreiðslu í Evrópu og Norður-Ameríku. Hugbúnaðurinn er í notkun í 75 löndum og er notaður daglega til að tryggja sanngjörn laun hjá yfir milljón manns hjá nokkrum af stærstu og þekktustu fyrirtækjum heims.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti Guðrúnu Þorgeirsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar PayAnalytics og Garðari Haukssyni, stofnanda og tæknistjóra fyrirtækisins verðlaunin á Nýsköpunarþingi í Grósku í dag.
Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu, sem segir í tilkynningunni. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.
Haft er eftir Guðrúnu að þegar hugmyndin hafi kviknað að þróun hugbúnaðar sem einfaldaði notkun gagna og greininga til að loka launabilum hafi það verið mjög fjarlægt að innan nokkurra ára yrði hugbúnaðurinn markaðsleiðandi bæði í Evrópu og Norður-Ameríku.
„Gulleggið 2016, styrkur Tækniþróunarsjóðs 2018, framsækin íslensk fyrirtæki sem komu í viðskipti, fjárfesting Nýsköpunarsjóðs 2020 og fjárfesting Nýsköpunarsjóðs og Eyris Vaxtar árið 2021, voru allt lykiláfangar á vegferð okkar. Við erum stolt af því að bætast í hóp þeirra glæsilegu fyrirtækja sem hafa fengið Nýsköpunarverðlaun Íslands og teljum að árangur PayAnalytics endurspegli mikilvægi stuðnings öflugs íslensks sprotasamfélags.”
Íslandsstofa veitir nýsköpunarfyrirtæki ársins þriggja milljóna króna styrk til alþjóðlegrar markaðssetningar, í samvinnu við Business Sweden.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess samkvæmt rökstuðningi dómnefndar hvort um sé að ræða sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýrri tækni og hugmynd og hafi þekkingu og reynslu til að sinna framúrskarandi þróunarstarfi. Þá sé lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Þá segir að metið sé hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum sé metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
„Það er mat dómnefndarinnar að PayAnalytics sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2023.“