Það er þörf á frekari umræðu um hlutabréfaviðskipti, gengi hlutabréfa og stöðu skráðra fyrirtækja.
Það er megininntak þess sem Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Kauphöllinni, ræðir í viðtali við Dagmál sem birt er á mbl.is í dag. Baldur skrifaði grein í ViðskiptaMoggann fyrir tveimur vikum þar sem hann hvatti til aukinnar umræðu um hlutabréfamarkað og fer nánar yfir það í viðtalinu.
Hann segir að erlendir viðskiptamiðlar fjalli mikið um gengi einstakra fyrirtækja, rýni uppgjör þeirra og fái til sín álitsgjafa og fjárfesta sem hafa skoðanir á því hvernig fyrirtæki eru verðlögð. Aftur á móti séu fáir sem vilji tjá sig opinberlega um hlutabréfaverð á Íslandi. Spurður um skýringar á þessu segir Baldur að umræða um hlutabréfamarkað hafi beðið hnekki með fjármálahruninu haustið 2008. Hann segir að í raun hafi þátttaka einstaklinga ekki tekið við sér á ný fyrr en á árunum 2019-20 með skráningu Síldarvinnslunnar og hlutafjárútboði Icelandair.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.