Fyrsta starfsemi sinnar tegundar á Íslandi

Einar Hermannsson og Ásgeir Örn Þorsteinsson eru stofnendur Leiguflugfélagsins.
Einar Hermannsson og Ásgeir Örn Þorsteinsson eru stofnendur Leiguflugfélagsins. Ljósmyndir/aðsendar

Fyrsta leigumiðlunin með flugvélar hefur litið dagsins ljós hérlendis. Eigendur fyrirtækisins eru þeir Einar Hermannsson og Ásgeir Örn Þorsteinsson og ber heiti þess Leiguflugfélagið á íslensku en Air broker Iceland á ensku.

Fyrirtækið hóf starfsemi sína um áramótin og verður fyrsta flugferðin sem er á vegum fyrirtækisins farin í dag. Í því tilfelli hefur fyrirtækið milligöngu að því að veita flugvél sem sem sækir skipsáhöfn til Nuuk. 

„Við erum leigumiðlar sem sjá um að finna flugvélar og velja hagkvæmustu og fljótlegustu leiðina fyrir fólk sem þarf á flugvél að halda,“ segir Einar.

Meðal verkefna er að veita aðgang að flugvélum á Grænlandi.
Meðal verkefna er að veita aðgang að flugvélum á Grænlandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Farþegaskipti á Grænlandi 

Að sögn hans eru slík fyrirtæki víða um heim en ekki hafi verið gerð sambærileg tilraun með flugleigumiðlun hérlendis. Einar telur tækifærin víða. Ekki síst á Grænlandi sem nýtur sívaxandi vinsælda meðal ferðamanna.

„Við höfum fengið margar fyrirspurnir er snúa að flugi til Constable point á Grænlandi í sumar. Þar er í sjálfu sér ekkert nema lítil flugbraut og einn traktor. En þarna fara hins vegar fram farþegaskipti á skemmtiferðaskipum," segir Einar.

Farþegum er þá flogið frá Íslandi og aðrir teknir til baka til Íslands þaðan sem þeir yfirgefa landið á eigin vegum. 

Ásgeir er fyrrum framkvæmdastjóri hjá Erni og tengdasonur Harðar Guðmundssonar sem stofnaði Erni á sínum tíma. Einar starfaði hjá innanlandsflugi IcelandAir í um 20 ár við hin ýmsu verkefni.

Fyrirspurn um Svalbarða 

Flugvélarnar koma hvaðanæva að. Að sögn Einars er fyrirtækið með samninga við hin ýmsu flugfélög og geta þeir með skömmum fyrirvara miðlað flugvélum af ýmsum stærðum og gerðum til handa þeim sem þurfa. Bæði eru samningar fyrir hendi við íslensk og erlend fyrirtæki.

Hann segir fyrirspurnir af ólíkum toga þó flestar hingað til snúi að Grænlandsmarkaði. 

„Við höfum fengið fyrirspurn um flug til Svalbarða, eins að koma 400 manns til Króatíu og þá snéri ein fyrirspurnin að því að koma fólki frá Ísafirði til Akureyriar sem vildi ekki keyra þar á milli,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK