Ofbeldi og lítilsvirðing

Samsett mynd/Þóróddur

Bílastæði fyrir framan skóvinnustofu Halldórs Guðbjörnssonar skósmiðs að Hrísateigi 19 við Sundlaugaveg hafa verið full af snjó í meira en viku þrátt fyrir að Halldór hafi hringt daglega og stundum tvisvar á dag í Ráðhús Reykjavíkur. Ástandið hefur haft mikil og neikvæð áhrif á viðskiptin. 

„Mér hefur mörgum sinnum verið sagt að sendur yrði maður til að moka en það hefur ekkert gerst,“ segir Halldór.  „Þeir moka öllum snjó af götunni yfir á stæðin mín,“ segir Halldór sem er mjög ósáttur við stöðu mála.

„Ég upplifi þetta sem ofbeldi gagnvart mér persónulega, mínum viðskiptavinum og þeirri þjónustu sem ég veiti.“

Þrjú stæði eru við húsið sem hafa nú verið full af gaddfreðnum hörðum snjó í á aðra viku.

„Svo kemst ég ekki inn á mitt stæði sem er við hlið hússins, þeir loka fyrir það líka.“

Engir bílar geta lagt fyrir framan skóvinnustofuna og viðskiptin hrynja.
Engir bílar geta lagt fyrir framan skóvinnustofuna og viðskiptin hrynja. mbl.is/Þóroddur

Halldór segir að viðskiptavinir, þeir fáu sem leggi í það, þurfi að skilja bíla sína eftir langt í burtu og ganga svo eftir troðningum til að komast á skóvinnuverkstæðið. „Fólk treystir sér ekki til að labba í þessari færð. Fólk stoppar ekki ef það er ekkert stæði.“

Hefur oft mokað sjálfur

Spurður að því hvort þetta sé árleg uppákoma segist Halldór hafa verið í 47 ár á þessum stað. „Ég hef oft mokað þetta sjálfur og stundum er ég að hjálpa fólki sem er að festa sig hérna fyrir framan. En núna er kominn tími til að láta staðar numið fyrir karl sem er að verða áttræður, að vera í sífellu að moka snjó fyrir borgina, ár eftir ár.“

Hann segist líta á gjörning borgarinnar sem lítilsvirðingu. „Þetta er lítilsvirðing, að maður sé talinn svo léttvægur að það sé talið að ekki þurfi að sinna þessu. Í fyrra fékk ég þá einu sinni til að moka af einu stæði.“

Harðir sem grjót

Halldór segir að eins og staðan er núna, þar sem skaflarnir séu harðir sem grjót, sé engin leið fyrir hann sjálfan að fara út að moka. „Ég er ekki viss um hvað fólkið sem á að sinna þessu segði ef kaupið væri tekið af því í svona langan tíma, og jafnvel í marga mánuði eins og í fyrra. Þá djöflaðist ég í þeim lengi og svo komu þeir og mokuðu með miklum harmkvælum,“ segir Halldór að lokum ómyrkur í máli.

Halldór Guðbjörnsson hefur rekið skóvinnustofu sína í 47 ár.
Halldór Guðbjörnsson hefur rekið skóvinnustofu sína í 47 ár. Mbl.is/Þóroddur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK