Skúli Mogensen, frumkvöðull, fyrrum eigandi Wow Air og núverandi eigandi sjóbaðanna í Hvammsvík, segir vert fyrir frumkvöðla að vara sig á þeim fjárfestum sem þeir velja til þess að fjármagna fyrirtækið.
Þannig geti fjárfestar sem hafa ónóga þekkingu eða reynslu af þeirri starfsemi sem fjárfest er í unnið gegn langtíma hagsmunum fyrirtækisins í leit að skjótfengnum gróða.
Þetta er meðal þess sem Skúli kynnti fyrir þeim sem sóttu nýsköpunarhraðal á Vesturlandi fyrir skemmstu, þar sem frumkvöðlar í landshlutanum komu saman. Í kynningu sinni bar einn punkturinn yfirskriftina „forðist fjárfesta.“
„Alveg eins og góður fjárfestir getur komið með mikil verðmæti með sér og fagþekkingu, þá getur rangur fjárfestir leitt þig á rangar brautir. Þannig að þú ert krafinn um að taka ákvarðanir er snúa að skammtíma hagsmunum frekar en að hafa sýnina til lengri tíma. Það er mjög algengt þegar yngri fyrirtæki eiga í hlut. Þú þarft að hafa fjárfesta með þolinmæði og skilning fyrir því sem verið er að gera. Vegferðin er mjög sjaldan bein lína, heldur hlykkjótt í átt að árangri,“ segir Skúli.
Hann segir að líkurnar á því að hlutirnir gangi upp hvíli á því að réttir fjárfestar komi inn á réttum tíma.
„Auðvitað þurfa flest allir að sækja sér fjármagn og þá skiptir höfuð máli að fjárfestar komi með eitthvað inn annað en bara peninginn. Það hjálpar í það minnsta gríðarlega til. Auðvitað eru til fyrirtæki sem eru með skýra sýn og bara í leit að fjármagni en það er sjaldnast þannig,“ segir Skúli.
Spurður hvort hann telji óheppilega fjárfesta hafa fjárfest í Wow Air á sínum tíma, þá segir Skúli svo ekki vera. „Nei, alls ekki,“ segir hann.
Skúli og fjölskylda eiga og reka sjóböð í Hvammsvík og koma engir utanaðkomandi fjárfestar þar nærri. Hann segir að aukinn fjölda hafi sótt sjóböðin í vetur.
„Veturinn hefur verið mjög góður og það er áframhaldandi ris í fjölda gesta. Þessi vetur er mun betri en fyrsti veturinn,“ segir Skúli.
Aðspurður telur hann að þessi aukning sé óháð þeim tímabundnu lokunum sem voru í Bláa lóninu. „Það tekur alltaf tíma að koma sér fyrir á markaði gagnvart erlendum ferðamönnum. Við erum mjög ánægð með aðsóknina sem af er,“ segir Skúli.