ÍE kaupir ofurtölvu fyrir 3 milljarða

Nvidia-ofurtölva sömu gerðar og sett verður upp hjá Íslenskri erfðagreiningu …
Nvidia-ofurtölva sömu gerðar og sett verður upp hjá Íslenskri erfðagreiningu í maímánuði. Með henni mun reiknigeta fyrirtækisins tvöfaldast á einu bretti og auðvelda greiningu flókinna mynstra í flóknum gögnum.

Íslensk erfðagreining (ÍE) mun í maímánuði fá afhenta nýja ofurtölvu frá Nvidia, sem Kári Stefánsson forstjóri ÍE segir að muni tvöfalda reiknigetu fyrirtækisins. Er hún þó ekki lítil fyrir, en áætlað er að fyrirtækið búi yfir meiri reiknigetu en íslenskt samfélag að öðru leyti samanlagt, að gagnaverunum undanskildum.

Tölvubúnaðurinn kostar um 23 milljónir Bandaríkjadala, eða liðlega 3 milljarða íslenskra króna, og þó að ofurtölvan sé ekki enn komin hefur hún hlotið nafnið Freyja.

Nvidia hefur verið á gríðarlegum skriði undanfarin misseri og hefur á skömmum tíma orðið mjög ráðandi í vélbúnaði og hugbúnaði þeim sem gervigreindarkerfi eru reist á.

Kári segir að með þessu sé þó ekki að verða nein bylting í starfsemi Erfðagreiningar, líkt og margir telji gervigreindina óhjákvæmilega leiða af sér. Þeir hafi lengi nýtt sér slíka tækni í vélþjálfun.

Flóknari mynstur

„Þessi aukna reiknigeta mun fyrst og fremst leiða af sér að við getum greint flóknari mynstur í flóknari gögnum, sem annars væri erfitt,“ segir Kári. Þar á meðal megi greina breytileika í myndum, sem aftur megi tengja við erfðir eða sjúkdóma, og þar sé ljóslega til mikils að vinna.

„Uppgötvanir eru nú samt þess eðlis að þær sér enginn fyrir, hvorki hvað þú uppgötvar né hvenær,“ segir hann.

„Með þessu aukum við mjög líkurnar á því að við gerum merkilegar uppgötvanir. Það er það eina sem við getum sagt.“

Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK