Vigdís Diljá Óskarsdóttir hefur verið ráðin stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu í kvöld en þar er haft eftir henni að hún taki full tilhlökkunar við starfinu.
„Alcoa Fjarðaál er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki í samfélaginu hér á Austurlandi og það er mjög spennandi að vinna meðal annars með þau samfélagslegu tengsl en tilheyra jafnframt teymi sem starfar í þessum málaflokki hjá Alcoa víða um heim,“ segir Vigdís Diljá.
Vigdís Diljá er fædd og uppalin í Fellabæ. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og söngpróf frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn lauk hún BA-prófi í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017. Samhliða námi vann hún að kynningarmálum fyrir Háskólann á Akureyri og dagskrárgerð á sjónvarpsstöðinni N4. Eftir námið starfaði Vigdís Diljá sem fréttamaður á RÚV en síðastliðin þrjú ár hefur hún verið verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála hjá sveitarfélaginu Múlaþingi.
Vigdís Diljá býr á Egilsstöðum ásamt eiginmanni sínum, Ísleifi Guðmundssyni og dætrum þeirra tveimur. Áhugasvið hennar er vítt og nær meðal annars yfir margskonar listsköpun og allt sem viðkemur samskipta- og samfélagsmálum, að því er fram kemur í tilkynningu.