Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra hefur í samráðsgátt stjórnvalda birt drög að breytingu á tekjuskattslögum, sem á að einfalda regluverk fyrir erlenda fjárfestingu. Frumvarpinu er ætlað að gera íslenskum fyrirtækjum auðveldara um vik að sækja fjármagn að utan.
Þá segir í frumvarpsdrögunum að mikilvægt sé að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd um erlent fjármagn til að styðja við íslenskt atvinnulíf, þá einkum nýsköpunarfyrirtækin sem treysta á aðgang að lánsfé. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því að lögð verði fram breyting sem snýr að öllum atvinnurekstri og tímabært sé að taka til endurskoðunar, þá sérstaklega vegna neikvæðra áhrifa á erlenda fjárfestingu.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins stendur jafnframt til að afnema skattskyldu á söluhagnað erlendra aðila í íslenskum félögum. Einnig er stefnt að því að rýmka reglur er varða nýtingu á uppsöfnuðu rekstrartapi þannig að það fyrnist ekki á 10 árum líkt og það gerir í dag. Fjármálaráðherra hefur áður tjáð sig um það en til greina komi að lengja tímann í 20 ár eða taka tímamörkin út. Loks er stefnt að því að kanna hvort hagnaður erlendra aðila af fjárfestingum í íslenskum sjóðum geti verið undanþeginn skatti.