Anna Jóna Kjartansdóttir hefur verið ráðin gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Terra. Hún hefur hafið störf í teymi menningar og sjálfbærni sem er stoðsvið Terra og dótturfélags þess. Anna mun leiða þróun í gæða-, umhverfis- og öryggismál hjá samstæðunni.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Terra.
Í tilkynningunni kemur fram að Anna komi til Terra frá Ístak. Þar starfaði hún sem gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri í 5 ár og bar ábyrgð á stjórnunarkerfi Ístaks, ásamt öðrum verkefnum, fyrir framkvæmdastjórn þvert á félagið.
Áður starfaði hún hjá Jarðborunum, einnig sem gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri. Þar áður var hún hjá Mannvit sem verkefnastjóri og umsjónarmaður umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfis.
Anna er með B.Sc. í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í Civil Engineering hjá DTU.
„Anna kemur inn með mjög mikla reynslu á sviði gæða-, umhverfis- og öryggismála. Það er margt fram undan hjá Terra og það er mikill fengur að fá Önnu inn til að leiða þessa mikilvægu málaflokka,“ er haft eftir Gróu Björg Baldvinsdóttur, framkvæmdastjóra menningar og sjálfbærni hjá Terra, í tilkynningu.
„Hún er lykilstarfsmaður í þróun gæða-, umhverfis- og öryggismenningar félagsins. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.“