Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 131 þúsund í janúar.
Það eru fleiri en árið áður en færri en árin fyrir faraldur. Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað milli ára dróst erlend kortavelta saman. Einnig virðast ferðamenn sem koma til landsins gista í færri nætur.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Ferðamönnum hefur fjölgað frá því í fyrra en í janúar 2023 komu 121 þúsund ferðamenn til landsins.
Fjórði ársfjórðungur síðasta árs var fjölmennasti fjórði ársfjórðungur frá upphafi þótt árið í heild hafi ekki verið jafnstórt ferðamannaár og metárið 2018.
Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað um 8% milli ára í janúar dróst erlend kortavelta á föstu gengi saman um 3,8%. Kortavelta er því töluvert minni á hvern ferðamann í janúar nú en fyrir ári. Dróst kortaveltan saman um 11%.
Sömu sögu má segja þegar litið er á tölur frá desember í fyrra. Þá fjölgaði ferðamönnum um rúmlega 19% en kortavelta á föstu gengi dróst saman um 8,6%.
Skráðar gistinætur erlendra ferðamanna hafa aldrei verið jafn margar og í fyrra.
Gistinóttum fjölgaði milli ára alla mánuði ársins, að desember undanskildum, þegar þeim fækkaði um 1% milli ára, þrátt fyrir að ferðamenn í desember hafi verið 20% fleiri en árið áður.
Ferðamenn virðast því gista í færri nætur og ríma þessar tölur ríma við tölur um erlenda kortaveltu.
Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga virðast hafa haldið lítillega aftur af komu ferðamanna. Hins vegar er ólíklegt að þær hafi haft áhrif á breytta neysluhegðun.
Kortaveltutölur síðustu tveggja mánaða og gögn yfir gistinætur í desember benda til þess að ferðamenn dvelji skemur og eyði því minna en mánuðina á undan.