Málareksturinn kostaði um tvo milljarða

Már Guðmundsson var seðlabankastjóri þegar málarekstur bankans gegn Samherja stóð …
Már Guðmundsson var seðlabankastjóri þegar málarekstur bankans gegn Samherja stóð yfir. mbl.is/​Hari

Bókin Seðlabankinn gegn Samherja, sem fjallar um málarekstur Gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands gegn Samherja, kemur út í dag. Í bókinni rekur Björn Jón Bragason málið og niðurstöðu þess. Bókin byggist að hluta á fyrri bók Björns Jóns, Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits, frá 2016. Síðan þá hefur margt áhugavert komið í ljós.

Með leyfi útgefanda birtir ViðskiptaMogginn hér brot út bókinni;

Óhemjumikill tími, orka og fjármunir fóru í allan þann málarekstur sem Seðlabankinn hóf með húsleitinni hjá Samherja. Fram til loka árs 2011 hafði Hreiðar Eiríksson verið eini starfsmaður rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlitsins en úttekt innri endurskoðanda hafði leitt í ljós að þörf væri á auknum mannskap. Þá var ráðinn maður sem starfað hafði hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra við rannsókn Asertamálsins og yfirmönnum gjaldeyriseftirlitsins þótt íhugull og spyrja skynsamlegra spurninga. Rannveig Júníusdóttir kom inn í rannsóknardeildina í aðdraganda húsleitarinnar og þessi þrjú önnuðust rannsóknina fyrstu vikurnar. Rannsóknarlögreglumaðurinn lét af störfum síðla vors. Um sumarið var bætt við ungum og nýútskrifuðum lögfræðingi og einum sérfræðingi til að annast skjölun og utanumhald. Næsta vetur bættust tveir úr eftirlitsdeildinni við hópinn en þeim var falið að vinna með rannsóknardeildinni við að finna og reikna út réttu viðmiðunarverð í viðskiptum ótengdra aðila og bera saman við sölureikninga sem lagt hafði verið hald á vegna sölu Samherja úr landi til tengdra aðila. Störfuðu alls sex starfsmenn gjaldeyriseftirlitsins í um tólf mánuði, þar til málið var kært til Héraðssaksóknara, við það eitt að rannsaka þetta eina mál.

Þá hafði embætti sérstaks saksóknara þetta mál til rannsóknar í alls um tvö ár til viðbótar. Jafnframt var Lagastofnun Háskóla Íslands fengin til að gera úttekt á framkvæmd gjaldeyriseftirlits. Enn fremur skilaði umboðsmaður Alþingis tveimur rækilegum álitum um framkvæmd gjaldeyriseftirlits og tók þátt í tveimur opnum fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þá þurfti atbeina umboðsmanns og Þjóðskjalasafns í athugun Persónuverndar en því máli lauk [...] árið 2023, ellefu árum eftir húsleitina. Dómstólar hafa ekki enn skorið úr um hvort Seðlabankinn hafi enn á ný valdið Þorsteini Má Baldvinsson miska en ætla má að málið verði tekið fyrir í héraðsdómi einhvern tímann á árinu 2024. Málefni Samherja, í einni eða annarri mynd vegna þessa máls, fóru að minnsta kosti 23 sinnum fyrir dómstóla, þar af níu sinnum fyrir Hæstarétt. Eins og fram hefur komið fjallaði bankaráð Seðlabankans um málið á tugum funda.


Þegar horft er til þessa er ekki óvarlegt að ætla að beinn útlagður kostnaður ríkissjóðs vegna þessa máls sem hófst með húsleitinni slagi upp í tvo milljarða króna. Í ljósi þess að málatilbúnaðurinn skilaði engum árangri fyrir málshefjanda er rétt að hafa í huga að á mörgum stigum málsins gáfust tækifæri og tilefni til að staldra við og jafnvel hætta leik. Margsinnis hefði verið hægt að takmarka tjónið, hvort sem er fyrir Samherja eða ríkissjóð.

Hér er ótalinn sá kostnaður sem féll á Samherja við varnir í málinu, að ekki sé minnst á óbeinan kostnað vegna þess tíma sem starfsmenn Samherja og ýmissa ríkisstofnanna vörðu í þetta mál en ekki önnur. Vissulega varðist félagið af hörku gegn því sem forsvarsmenn þess töldu ranglátan málatilbúnað en ætla má að kostnaður félagsins af þeim sökum nemi að minnsta kosti einum milljarði króna. Þá hélt þetta mál stjórnendum félagsins uppteknum svo að árum skipti en þeim tíma hefði betur verið varið í áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Í heild má því segja að Seðlabankamálið hafi kostað um þrjá milljarða króna og sennilega meira.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK