Sigrún og Birgir ný í framkvæmdastjórn Skaga

Sigrún Helga Jóhannsdóttir er nýr yfirlögfræðingur Skaga og Birgir Örn …
Sigrún Helga Jóhannsdóttir er nýr yfirlögfræðingur Skaga og Birgir Örn Arnarson er framkvæmdastjóri áhættustýringar Skaga. Samsett mynd

Sigrún Helga Jóhannsdóttir og Birgir Örn Arnarson hafa tekið sæti í stjórn Skaga, nýs móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar. Þau munu sitja þar ásamt Haraldi Þórðarsyni, forstjóra, Brynjari Þór Hreinssyni, fjármálastjóra samstæðu, Arnóri Gunnarssyni, framkvæmdastjóra SIV eignastýringar, Steingrími Arnari Finnssyni, forstjóra Fossa og Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, forstjóra VÍS trygginga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Sigrún Helga gegnir nú starfi yfirlögfræðings Skaga, en hún hefur frá árinu 2018 starfað sem yfirlögfræðingur VÍS. Sigrún hefur 20 ára reynslu af lögfræðistörfum á sviði fyrirtækja og eftirlitsskyldra aðila. Áður starfaði hún sem lögfræðingur Eikar fasteignafélags og lögmaður og síðar meðeigandi hjá Advel lögmönnum.

Sigrún Helga er með Cand. Jur.-gráðu frá Háskóla Íslands, málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og er viðurkenndur stjórnarmaður.

Birgir Örn Arnarson gegnir nú starfi framkvæmdastjóra áhættustýringar Skaga og ber ábyrgð á áhættustýringu samstæðunnar. Birgir hefur meðal annars gegnt stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar (e. Chief Risk Officer) hjá PayPal Europe og yfirmanns lausafjárgreiningar hjá PayPal samstæðunni.

Birgir starfaði einnig sem yfirmaður markaðsáhættugreiningar (e. Head of Market Risk Analytics) á fjárfestingasviði alþjóðlega tryggingafélagsins Zurich. Birgir er með doktorspróf í kennilegri og hagnýtri aflfræði frá Cornell-háskólanum í Bandaríkjunum. Hann er jafnframt með próf í verðbréfaviðskiptum.

Móðurfélagið Skagi var kynnt til sögunnar í síðustu viku og verður lagt til við aðalfund Vátryggingafélags Íslands. Framtíðarskipulag samstæðunnar hefur verið kynnt og samþykkt af hluthöfum með tilfærslu tryggingareksturs í dótturfélag. Þegar tilfærslan hefur átt sér stað verður Skagi skráða félagið í Kauphöll Íslands, sem áður var undir merkjum VÍS.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK