Björn Brynjúlfur Björnsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann mun hefja störf þann 1. maí næstkomandi og tekur við starfinu af Svanhildi Hólm Valsdóttur, sem skipuð hefur verið sendiherra í Washington.
Í tilkynningu frá Viðskiptaráði kemur fram að Björn sé framkvæmdastjóri og stofnandi Moodup, hugbúnaðarfyrirtækis sem mælir starfsánægju fyrir vinnustaði. Áður starfaði hann sem efnahags- og rekstrarráðgjafi, hagfræðingur Viðskiptaráðs og ráðgjafi hjá McKinsey & Company. Björn er hagfræðingur að mennt með meistaragráðu frá University of Oxford.
„Ég hlakka til mæta aftur til Viðskiptaráðs og vinna þar að jákvæðum breytingum fyrir íslenskt samfélag. Á síðustu árum hef ég öðlast fjölþætta sýn á rekstrarumhverfi fyrirtækja í gegnum störf mín sem frumkvöðull og ráðgjafi, sem verður gott veganesti á þeirri vegferð. Innan raða Viðskiptaráðs má finna breiðan hóp fyrirtækja með reynslumikla stjórnendur,“ segir Björn Brynjúlfur í tilkynningunni.