Icelandair og Emirates vilja vinna saman

Viljayfirlýsingin var undirrituð í dag af Helga Má Björgvinssyni yfirmanni …
Viljayfirlýsingin var undirrituð í dag af Helga Má Björgvinssyni yfirmanni alþjóðasamskipta hjá Icelandair og Anand Lakshminarayanan, framkvæmdastjóra tekjusviðs hjá Emirates. Ljósmynd/Aðsend

Icelandair og Emirates skrifuðu fyrr í dag undir viljayfirlýsingu um samstarf. Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu flugfélögin vinna að samningi um sammerkt flug sem mun gera viðskiptavinum kleift að tengja á milli leiðakerfa flugfélaganna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. 

„Samstarf flugfélaganna mun stórauka framboð beggja félaga á öflugum tengingum þar sem viðskiptavinir geta ferðast á einum farmiða á milli leiðakerfa félaganna og innritað farangurinn alla leið á lokaáfangastað,“ segir í tilkynningunni. 

Víkkar út leiðakerfi Icelandair

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að þetta muni opna á nýja og spennandi ferðamöguleika fyrir viðskiptavini um Miðausturlönd og Asíu. 

„Emirates verður sjöunda alþjóðlega samstarfsflugfélag okkar en við vinnum markvisst að því að fjölga samstarfsflugfélögum sem bæði styrkir tekjumyndun félagsins og víkkar út leiðakerfi okkar. Við leggjum áherslu á samstarf við félög sem bjóða frábæra þjónustu og spennandi tengingar sem á svo sannarlega við um Emirates,“ er haft eftir Boga.

Þá er haft eftir Adnan Kazim, aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra sölu hjá Emirates, að leiðakerfi Icelandair sé góð viðbót við leiðakerfi Emirates í Evrópu þar sem það bæti við fjölda tenginga og gefi viðskiptavinum Emirates tækifæri á enn fjölbreyttari ferðalögum.

„Við höfum fulla trú á að samstarfið muni skila raunverulegum ávinningi fyrir Emirates og viðskiptavini okkar og við erum spennt fyrir því að styrkja samstarfið enn frekar til framtíðar,“ er haft eftir Adnan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK